Við leggjum áherslu á að starfshættir okkar endurspegli hugmyndafræðilegar áherslur leikskólans. Til þess nýtum við okkur fjölbreyttar leiðir sem byggjast á leik, virðingu, vináttu og vellíðan.

Stjórnun og hlutverk kennara
Í leikskólanum er lögð áhersla að nýta þann mannauð sem er hverju sinni. Að bæði stjórnendur, kennarar og aðrir starfsmenn fái tækifæri til að efla og þróa sig í starfi. Lögð er áhersla á dreifða forystu sem felur í sér að innan leikskólans starfar stjórnendateymi sem kemur að ákvörðunartöku og þróun á starfi leikskólans. Unnið er eftir starfslýsingum stéttarfélagana sem hafa samning við Reykjavíkurborg.

Leikur og nám
Leikurinn skipar veigamiklu hlutverki í öllu starfi okkar enda er leikurinn börnunum sjálfsprottinn og eðlislægur. Leikurinn getur veitt gleði og vellíðan en einnig getur leikurinn falið í sér valdabaráttu og átök. Börn leika sér af fúsum og frjálsum vilja og á eigin forsendum. Leikurinn er helsta námsleið barna og skapar hann börnum tækifæri til að læra og skilja umhverfið sitt, tjá hugmyndir sínar, reynslu og tilfinningar og þróa félagsleg tengsl við önnur börn. Í leik barna verða til félagslegir hópar og við það verður til þeirra eigin menning. Í leik geta börn unnið með og gert tilraunir með hugmyndir sínar og öðlast nýjan skilning og nýja þekkingu. Leikurinn skapar vettvang þar sem spurningar vakna og börnin fá tækifæri til að leysa vandamál sem upp koma. Leikurinn getur verið bæði markmið og leið í leikskólastarfi. Þegar leikur er nýttur sem leið eru sett fram ákveðin markmið sem ætlunin er að ná í gegnum leikinn. Námssvið leikskólans fléttast inn í leik barna þegar starfsfólk tengir á markvissan hátt markmið þeirra við leik. Leikskólakennarinn kynnir börnum nýja möguleika og skapar þannig sameiginlega reynslu sem nýtist í leik. Í leik læra börn hvert af öðru en hlutverk hins fullorðna í leik barna er engu síður mikilvægt og margþætt.
Hlutverk leikskólakennara er að styðja við nám barna í gegnum leik á margvíslegan hátt, m.a. með því að:

• Skapa fjölbreytilegt leikumhverfi og veita aðgengi að leikefni sem hvetur börn til að rannsaka, finna lausnir og skapa.
• Gefa leik nægan og samfelldan tíma.
• Gefa leik nægjanlegt rými svo að börnin hafi svigrúm til að hreyfa sig og til að þróa leik og dýpka.
• Styðja við sjálfsprottnar athafnir og áhuga.
• Eiga samskipti við börn og mynda tengsl við þau í gegnum leik.
• Vera vakandi fyrir þeim tækifærum sem upp koma í leik og nota þau til að kveikja áhuga barna og styðja við nám þeirra .
• Styðja við og efla jákvæð samskipti í leik.
• Sjá til þess að öll börn hafi tækifæri til þátttöku í leik bæði úti sem inni.

Þegar fylgst er með leik barna má sjá hvernig þau yfirfæra reynslu úr eigin lífi inn í leikinn. Þau miðla þeirri reynslu til annarra barna og víkka þar með reynsluheim félaga sinna. Í leiknum kemur upp ýmiskonar ágreiningur sem börnin þurfa að læra að leysa á friðsamlegan hátt. Á þann hátt læra þau af hvert öðru og öðlast nýtt sjónarhorn.

Flæði er æði
Í stað hefðbundis hópastarfs er boðið upp á stöðvavinnu sem byggir á hugmyndinni um „flæði“. Þar er lögð áhersla á að vinna út frá áhuga barnanna og að þau upplifi svokallað hugarflæði. Þátttaka kennara í flæðinu er mikilvæg og verða þeir að vera tilbúnir að grípa tækifærin og þróa svæðin sín svo að áhugi barnanna haldist. Stöðvavinna fer fram tvisvar til þrisvar í viku á morgnanna. Í stöðvavinnunni er einnig unnið með þau þemaverkefni sem koma upp hverju sinni.

Njóta og upplifa
Útikennsla, eða eins og við veljum að kalla hana „njóta og upplifa“, er hluti af stöðvavinnunni. Alltaf er boðið upp á útiveru en við notum „Holtið“ sem er grenndarsvæðið okkar þegar tækifæri gefast og einnig förum við með börnin um nánasta umhverfi leikskólans. Við í Seljahverfinu erum svo lánsöm að eiga fjölbreytt og fallegt umhverfi sem gefur mörg tækifæri til kennslu.

Föstudagsfjör
Einu sinni í viku, eða á föstudögum, er svokallað „föstudagsfjör“. Þá eru allar deildir/svæði opin og boðið er upp á ákveðin viðfangsefni á hverjum stað. Börnin velja sér svæði út frá áhugasviði og staldra þar við eins lengi og úthald þeirra og áhuginn endist.