Í gegnum leikinn lærum við! Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfsins, lífstjáning og gleðigjafi barns. Frjáls og sjálfsprotinn leikur er barninu eðlislægur. leikurinn endurspeglar reynsluheim barnsins og ímyndunarafl. Í sjálfsprottnum leik gefst tækifæri til að læra samskiptareglur, félagsfærni og málþroski eykst. Efniviður verður að vera tilstaðar sem eflir sjálfsprottinn leik. Gefa þar tíma til leiksins.

Læsi og samskipti

Börn eru félagsverur og hafa ríka þörf fyrir samskipti við aðra, nota þau ýmsar leiðir til tjáskipta. Í gefandi samskiptum og leik styrkjast félagsleg samskipti. Læsi í víðum skilningi er mikilvægur þáttur í öllum samskiptum. Læsi í leikskóla felur í sér að auka þekkingu, leikni og hæfni barna til að geta lesið í umhverfi sitt og tjá upplifun sína, tilfinningar og skoðanir á fjölbreyttan hátt. Verið er að vinna að læsisáætlun Hálsaskógar og ljóst er að hún verður í sífelldri endurskoðun.

Markmið
Leikskólum ber að skapa eftirfarandi aðstæður fyrir barnið:

 • leysa úr ágreiningi við jafningja á friðsamlegan hátt,
 • vinna úr reynslu sinni í leik og skapandi starf,
 • tjá sig með fjölbreyttum hætti (líkamlega, munnlega og í skapandi starfi),
 • leita eftir merkingu orða og orðasambanda, ríma og átta sig á hljóðum stafa
 • njóta þess að hlusta á og semja sögur, ljóð, þulur og ævintýri,
 • ræða málefni og hlusta á aðra,
 • nálgast upplýsingar með ólíkum leiðum og móta sér hugmyndir um þær,
 • velta vöngum yfir eigin samfélagi og menningu og menningu annarra þjóða.

Leiðir
Við leggjum mikla áherslu á lestur og fá börnin lestrarstund að jafnaði tvisvar á dag. Við reynum að gera umhverfið okkar læsishvetjandi með því að hafa ritmálið sýnilegt og að börnin hafi greiðan aðgang í fjölbreyttan efnivið sem eflir læsið. Leikskólinn er einnig þátttakandi í verkefni í Breiðholti sem kallast „Læsi allra mál“. Verkefnið er sameiginlegt með þjónustumiðstöð Breiðholts og leik- og grunnskólum Breiðholts. Við kappkostum okkur við að nýta tækifærin sem koma upp í daglegu starfi til að eiga samræður og hvetjum til uppbyggilegrar umræðu. Tákn með tali er notað í daglega starfinu og öll börn og starfsfólk fá úthlutað tákni. Við notum þau verkfæri sem til eru s.s. bækur, spil og fl. sem eflir og styður við læsið.

Heilbrigði og velferð

Í leikskóla eiga börn að læra um og tileinka sér heilbrigða lífshætti, hollt mataræði, hvíld, hreinlæti og hreyfingu. Hreyfing er börnum eðlislæg og stuðlar að vellíðan, hún getur veitt gleði og ánægju. Hún er stór þáttur af daglega starfi í leikskóla og mikilvægt er að veita börnum tækifæri til að hreyfa sig bæði með skipulögðum hreyfistundum og frjálst. Jákvæð samskipti er lykilþáttur í því að skapa vellíðan og hefur áhrif á heilbrigði og velferð. Leikskóli með skólabrag þar sem viðhöf eru jákvæð samskipti, vinátta, virðing, samhygð og umbyrðarlyndi eykur líkur á vellíðan.

Markmið
Leikskólum ber að stuðla að heilbrigði og vellíðan með eftirfarandi áhersluþáttum:

 • sýna umhyggju,
 • sjá um persónulega umhirðu,
 • þekkja holla næringu,
 • stunda fjölbreytta hreyfingu,
 • stunda ögrandi og krefjandi útivist,
 • stunda slökun og hvíld,
 • sýna tilfinningalegt jafnvægi,
 • eiga jákvæð samskipti,
 • njóta félagslegra tengsla.

Leiðir
Leikskólinn leggur ríkulega áherslu á að bjóða upp á hollan og góðan mat. Nær allur matur er eldaður frá grunni og reynt að hafa hann sem fjölbreyttastan. Leikskólinn fylgir þeim hefðum sem eru í gangi hverju sinni s.s. Bolludegi, sprengidegi, þorranum og fleira. Útivera er lykilþáttur í okkar starfi og fara öll börn út a.m.k. einu sinni á dag. Við leggjum upp með að fara í gönguferðir um nánasta umhverfi og einnig til að búa til tækifæri til að hreyfa sig við hinar ólíku aðstæður. Holtið er okkar grenndarsvæði og nýtum við okkar það eins og kostur er á meðan veður að aðstæður leyfa. Elsti árgangur fer í leikfimi einu sinni í viku á veturnar sem er í samstarfi við ÍR. Einnig er farið að vori með þau í sundferð. Við nýtum okkur grunnskólalóðirnar í nágrenninu við okkur og önnur útisvæði. Leikskólinn er þátttakandi í verkefninu „Heilsueflandi Breiðholt“ og felur það í sér að aukin meðvitund er varðandi þennan mikilvæga þátt. Þó að hreyfing sé alltaf mikilvægt er hvíld og slökun ekki síður mikilvæg og yngri börnin leggja sig eftir hádegismat. Eldri börnin fá annarskonar slökun og hvíld.

Sjálfbærni og vísindi

Leikskólinn hefur það hlutverk að styðja við fróðleiksþorsta barna með því að fylgjast með og hlusta eftir áhugasviði barnanna. Starfsfólk í leikskóla þurfa að undrast með börnunum, ýta undir forvitni, ígrundun og vangaveltur og hvetja þau til spyrja spurninga og leita mismunandi lausna. Börn eru sífellt að beita ýmsum aðferðum við að kanna og auka skilning sinn á umhverfi sitt. Þau horfa, snerta, bragða, handleika, flokka, bera saman, rannsaka og draga ályktanir. Mikilvægt er að kenna börnum að bera virðingu fyrir umhverfi sínu og náttúru og skapa þeim tækifæri til að upplifa og njóta.

Markmið
Leikskólum ber að skapa eftirfarandi svo börn fái tækifæri til að vinna með og velta vöngum yfir:

 • Velta vöngum yfir umgengni sinni og bera virðingu fyrir náttúrulegu og manngerðu umhverfi,
 • átta sig á því hvernig vistspor þeirra og nærsamfélag geta stuðlað að sjálfbærri þróun,
 • skilja hringrásir og ýmis fyrirbæri í náttúrunni,
 • átta sig á margvíslegum auðlindum náttúrunnar,
 • velta vöngum yfir nýtingu náttúrunnar,
 • vinna með upplýsingamiðlun, framsetningu og gildi upplýsinga,
 • vinna með stærðfræðileg viðfangsefni, s.s. tölur, tákn , mynstur,
 • vinna með lífverur í umhverfinu og lífshætti þeirra,
 • vinna með eðli ýmissa krafta og birtingarmyndir þeirra í umhverfinu,
 • skoða eiginleika ýmissa efna og hluta,
 • velta vöngum yfir möguleikum og takmörkunum tækninnar,
 • átta sig á rými, fjarlægðum og áttum.

Leiðir
Þar sem leikskólinn er Grænfána leikskóli er mikil áhersla lögð á sjálfbærni og um leið vísindi. Við leggjum áherslu á flokkun og endurvinnslu og eru börnin virkir þátttakendur í þeirri vinnu. Frjálsi leikurinn er notaður í allri vinnu. Allur matarúrgangur sem fer frá leikskólanum er settur í moltun, bæði í tunnur í leikskólanum og einnig brúnar tunnur. Pappír, plast og aðrar umbúðir eru einnig flokkaðar og reynum við að nýta þennan efnivið í okkar daglega starf s.s. sköpun. Við leggjum áherslu á að börnin og starfsfólkið tileinki sér þá hugsun að það er í okkar höndum að varveita jörðina okkar og það sem tekið er sé skilað tilbaka. Börnin læri að þekkja og lesa í umhverfið og náttúruna.

Börnunum er eðlislægt að kanna, snerta, skynja og skilja og í gegnum leikinn og starfið fá þau tækifæri til að upplifa nýja hluti.

Sköpun og menning

Sköpun og menning er samofin öllu starfi í leikskóla og mikilvægt er að starfsfólk geri barninu kleift að nálgast viðfangsefnin frá mörgum hliðum og á eigin forsendum. Sköpun er mikilvægur þáttur í lífi barnsins og hvetja skal til skapandi hugsunar og sjálfstæðra vinnubragða hjá börnunum. Sköpun byggist á uppgötvun, gagnrýnni hugsun, rannsókn og ótal aðferðum sem sífellt opna nýjar leiðir. Starfsfólk þarf að vera forvitin með þeim og hafa getu í að leika að fingrum fram. Börn eru gullmolar og er það hlutverk kennara að fá gullið til glóa. Menning getur verið ólík og ber að virða það, fögnum fjölbreytileikanum og slíkt viðhorf ætti að ríkja innan veggja leikskóla.

Markmið
Leikskólum ber að skapa eftirfarandi tækifæri:

 • njóta þess að taka þátt í skapandi ferli,
 • finna ánægju og gleði yfir eigin sköpunarkrafti,
 • kanna og vinna með margvíslegan efnivið,
 • nýta fjölbreytta tækni,
 • njóta bókmennta, þula, söngs, og ævintýri,
 • læra texta og taka þátt í söng,
 • skapa og tjá upplifun sína, s.s. í myndlist, tónlist, dansi og leikrænni tjáningu,
 • njóta fjölbreyttrar menningar og lista,
 • taka virkan þátt í að móta menningu leikskólans með hátíðum og viðburðum sem tengist barnamenningu,
 • kynnast og vinna með listafólki á hinum ýmsum sviðum menningar og lista.

Leiðir
Í Hálsaskógi er sköpun lykilþáttur í okkar starfi og er mikilvægt er að sköpunargleði hvers og eins fái að njóta sín. Við reynum að hafa viðfangsefnin sem fjölbreyttastan og leiðirnar einnig. Við leggjum áherslu á að nálgast viðfangsefnin út frá áhugasviði barnanna og barnið fái tækifæri til að velja sér leiðir og aðferðir. Börnin eru hvött til að sköpunar og að nýta sér verðlausan efnivið til þess. Að búa til að sögur er ein leið til að tengja bæði menningu og sköpun inn í starfið.

Í Hálsaskógi er lögð áhersla á þá menningu sem hafa verið ríkjandi í leikskólanum eða hverfinu í áratugi.