Foreldrar eru sérfræðingar í sínum börnum og líðan barns í leikskóla er samtvinnuð velferð fjölskyldu þess og heimilis. Strax við upphaf leikskólagöngu er lagður hornsteinn að góðu samstarfi foreldra og leikskóla. Leikskólinn leggur áherslu á mikilvægi þess að náið samstarf og gagnkvæmt traust skapist við foreldra frá byrjun. Leikskólakennarinn kynnist barninu í gegnum starf leikskólans og þekkir hvernig það tekst á við leikskólastarfið. Leikskólinn og foreldraráð leikskólans vann sameiginlega að foreldrahandbók fyrir foreldra og hefur handbókin að geyma allar nauðsynlegar upplýsingar um starfið, hefðir og fleira. Nálgast má handbókina á heimasíðu leikskólans (stefnt er að því að láta þýða handbókina á nokkur tungumál).

Aðlögun barnsins

Í Hálsaskógi er aðlögunin unnin í samráði við foreldra um hvernig staðið skuli að aðlögun barnsins. Foreldrar eru hér í aðalhlutverki og af þeim læra leikskólakennarar og annað starfsfólk að annast barnið og þekkja styrkleika þess og þarfir. Hálsaskógur er með ákveðna verkferla sem stuðst er við í aðlögun barnsins.

Kynningarfundur og fyrsta viðtal

Leikskólinn Hálsaskógur heldur kynningarfund að vori fyrir foreldra nýrra barna. Á þessum fundi eru veittar upplýsingar um leikskólastarfið og hvernig aðlögun barnanna verður háttað. Þegar líður að því að barnið hefji leikskólagöngu eru foreldrar boðaðir í foreldraviðtal, svokallað „fyrsta viðtal“. Foreldrar veita starfsfólki upplýsingar um barnið og bakgrunn þess. Foreldrar þeirra barna sem ekki tala íslensku er boðið upp á túlkaþjónustu eins ef nota þarf táknmál. Í foreldarhandbók leikskólans er að finna helstu upplýsingar um það sem foreldrar þurfa að hafa í huga er barn þeirra byrjar í leikskólanum.

Aðlögun á milli húsa

Við leggjum ríka áherslu á því að flutningur eða aðlögun barna á milli húsa gangi sem allra best, bæði fyrir börn og foreldra. Við bjóðum foreldrum upp á viðtal með deildarstjórum, frá yngri deild og eldri deild, þar sem fyrstu kynni eiga sér stað og upplýsingar um barnið er skilað. Börnin á Borg fara í dag mikið á milli húsa þar sem listalundurinn er staðsettur í Koti. Það auðveldar flutninginn á milli deilda.