Við í Hálsaskógi erum með margar hefðir og hátíðir og brjótum þannig upp hinn hefðbundna dag. Sumar hefðirnar hafa fylgt okkur úr hinum gömlu leikskólum, Hálsaborg og Hálskoti, en einnig hefur leikskólinn búið til nýjar hefðir. Hér fyrir neðan má finna helstu viðburði í leikskólanum, listinn er þó ekki tæmandi og reynum við að grípa þau tækifæri sem koma upp hverju sinni. Við erum með nokkra „litadaga“ en þá koma börn og starfsfólk til starfa klædd ákveðnum lit, það er ekki skylda.

 • Litadagar
  – Grænn dagur- Dagur umhverfis
  – Rauður dagur- fyrir jólin
  – Bleikur dagur- Bleikur október
  – Gulur dagur- fyrir páska
  – Blár dagur- dagur einhverfunnar í apríl og fyrir sjómannasunnudag
  – Regnbogadagur- á degi leikskólans 6.febrúar. Hver deild fær úthlutað einum lit og á vinafundi í sal hittast allir og mynda regnboga.
 • Ömmu og afa kaffi í október.
 • Bóndagsmorgunverður á bóndadegi.
 • Konudagsmorgunverður á föstudeginum fyrir konudag.
 • 27. okt er Bangsadagur og náttfatadagur.
 • Dagur íslenskrar tungu 16. nóvember.
 • Jólasmiðjur í byrjun desember.
 • Kirkjuferð fyrir jól í samstarfi við Seljaleikskólana.
 • Jólaball fyrir börnin.
 • Höldum upp á þorrann, bollu-, sprengi- og öskudag.
 • Skógardagur í apríl en þá bjóða börnin fjölskyldum sínum í leikskólann og sýna afrakstur vetrarins.
 • Sumarhátíð Seljaleikskólana í kringum 17. júní.
 • Vorferð í maí á vegum foreldrafélagsins.

Við leggjum okkur fram við að veita foreldrum upplýsingar um það sem fram fer í leikskólanum, með vikulegum tölvupóstum, upplýsingum á töflum fyrir framan hverja deild, heimasíðu leikskólans og Facebook síðu.

Foreldraráð

Samkvæmt lögum skal vera starfandi foreldraráð í leikskólum og segir m.a. að kjósa skuli foreldraráð við leikskóla og skal leikskólastjóri hafa frumkvæði að kosningu í ráðið. Í foreldraráði Hálsaskógs sitja fulltrúar foreldra og taka þátt í mótun og ákvörðunum um leikskólastarfið. Við leitumst við að hafa fulltrúa af hverri deild, sex fulltrúa. Foreldraráð setur sér starfsreglur.

Foreldrafélagið

Við leikskólann Hálsaskóg er starfandi foreldrafélag og er það mikilvægur þáttur í okkar starfi og foreldrasamstarfi. Einn fulltrúi af hverri deild er kosinn í félagið á foreldrafundum að hausti. Foreldrar ráða hvort þeir vilji verða aðilar að félaginu eða ekki. Foreldrafélagið stendur fyrir ýmsum uppákomum fyrir börnin s.s. jólaskemmtun, sveitaferð, leikriti og fl. Aðstoðarleikskólastjóri heldur utan um foreldrafélagið.

Foreldrafundir

Að hausti eru foreldrar boðaðir á foreldrafund þar sem leikskólastjóri og deildarstjóri fara yfir áherslur komandi skólaárs. Þessir fundir eru yfirleitt haldnir snemma morguns.