Leiðarljós Jöklaborgar: Gleði – Virðing – Sköpun

Í Jöklaborg er kappkostað við að gleði sé ríkjandi í starfi leikskólans og að starfsmenn leggi sig fram við að kalla fram það góða hjá hverjum einstaklingi. Að hafa gaman saman er lykilatriði í hverju verki. Gleðin liggur m.a. í því að börnin finni hæfileikum sínum farveg og fái tækifæri til að njóta sín sem einstaklingar. Virðing fyrir hverjum einstaklingi, skoðunum hans, löngunum og verkum er lykilatriði í starfi leikskólans. Sköpun er í hávegum höfð í starfi Jöklaborgar og nær til þess að vera skapandi í hugsun, gjörðum og verki. Leiðarljós leikskólans á að koma fram í öllu starfinu þ.e. með börnunum, í samstarfi starfsmanna og foreldra.

Einkunnarorð Jöklaborgar:
Að vera í skóla er ekki undirbúningur undir lífið, það er lífið.
(John Dewey)

Lógó Jöklaborgar
Hönnuður lógósins er Helga Unnarsdóttir leirkerasmiður. Foreldrafélag Jöklaborgar efndi til samkeppni 2003 og var hugmynd Helgu valin. Hún segir hugmyndina að merkinu vera þá að öll standi börnin saman þar sem „Gróandinn grær“, og haldi nafni leikskólans á lofti. Hún hugsaði það sem lifandi lógó þannig að hægt er að taka út úr eitt barn og hafa sér t.d. nota það sem skilaboðaskjóðu.
Námskrá Jöklaborgar er unnin af starfsmönnum leikskólans og börn leikskólans komu að námskránni með þeim hætti að þau svöruðu spurningum er tengjast grunnþáttum menntunar. Hluta námskrárinnar unnu leikskólastjórar leikskólanna í Seljahverfi saman. Foreldrar komu að námskrárgerðinni þannig að foreldraráð las hana yfir og gaf umsögn um hana. Á grunni aðalnámskrár leikskóla gefin út 2011 af mennta- og menningarmálaráðuneyti er námskrá Jöklaborgar unnin. Námskrá þessi tekur við af námskrá sem kom út árið 2009.

Leiðarljós Reykjavíkurborgar:
Reykjavíkurborg setur sér það markmið og leiðarljós að í leikskólum borgarinnar sé unnið metnaðarfullt fagstarf þar sem hverju barni er mætt á eigin forsendum. Áhersla er á virkt foreldrasamstarf með virkri þátttöku foreldra og að í leikskólunum starfi vel menntað og áhugasamt starfsfólk.

Hugmyndafræði og áherslur leikskólans

Hugmyndafræðilegar áherslur Jöklaborgar byggja á hugmyndum ýmissa fræðimanna og eru meginkenningar komnar frá Sergiovanni varðandi stjórnun leikskólans, Jean Piaget og John Dewey um það hvernig börn tileinka sér þekkingu og nám. Urie Bronfenbrenner um gagnvirkt samspil einstaklingsins við umhverfi sitt. Beritar Bae með hugmyndafræði varðandi samskipti sem fyrst og fremst eiga rætur að rekja til gagnvirkniskenninga og þróunar sjálfsins. Thomas Gordon setur fram hugmyndir varðandi samskipti og ákveðna samtalstækni sem leiðir til gagnkvæmrar virðingar í samskiptum. Mihaly Csikszentmihalyi með kenningar um flæði (flow) sem verið er að byrja með í Jöklaborg.

Stjórnun leikskólans tekur mið af stefnu þar sem áhersla er lögð á mannauð, að starfsmenn vinni sem ein heild með sameiginlega sýn og gildin séu öllum ljós. Lýðræði skipar stóran sess í öllu starfi leikskólans, framlag hvers starfsmanns er mikils metið og viðurkennt að við erum ólík. Hæfileiki hvers og eins fái að njóta sín og samfélag innan leikskólans gefi einstaklingnum færi á að vaxa og þroskast, m.a. með að axla ábyrgð, með þátttöku í verkefnum og að valdi sé dreift. Fagleg stýring er viðhöfð, t.d. með leiðbeiningum, þekkingarmiðlun og fræðslu. Áhersla er lögð á að gæði verkefna sé í fyrirrúmi og starf leikskólans sé merkingarbært og þar viðgangist þróun en ekki stöðnun. Lærdómssamfélag þar sem starfsmenn bera sameiginlega ábyrgð á námi barna og hvers annars. Mannauðsstefna og þjónandi forysta eru stjórnunarstefnur sem horft er til. Áherslur mannauðsstefnunnar eru, m.a. þær að kennarar vilji vinna að þýðingarmiklum markmiðum, bera ábyrgð og vera skapandi í störfum sínum. Áhersla þjónandi forystu er að þjóna og mæta þörfum samstarfsfólks og ná markmiðum fyrirtækisins með þeim hætti.

Samskipti grundvallast á hugmyndum Beritar Bae sem er norskur lektor og hefur gert margar rannsóknir á samskiptum barna og fullorðinna í leikskólum. Horft er til mikilvægis góðra samskipta í starfi með börnum, foreldrum, starfsmanna á milli og öllum samstarfsaðilum. Berit Bae telur að viðhorf, viðmót og öll framkoma starfsmanna í leikskólanum gagnvart börnum og starfsfélögum skapi forsendur fyrir þróunarmöguleikum þessara aðila. Hún telur mikilvægt að í samskiptum ríki viðhorf sem stuðli að því að allir hafi rétt til að njóta eigin reynslu, upplifana, hugsana og gjörða. Kenning Beritar Bae „Gagnvirkniskenning” hefur með að gera að einstaklingurinn þrói sitt „sjálf” í gagnvirku samspili við annan einstakling. Hún leggur áherslu á samskipti barn/barn og barn/fullorðinn. Lykilhugtök í kenningu hennar segir hún að varpi ljósi á hvað gerist í samskiptunum. Þau eru: Nálægð, viðurkenning, staðfesting, skilgreiningarvald/binding, ígrundun/aðgreining.

Hugtök þessi eru gildishlaðin en skapa eina heild þegar horft er til samskipta almennt. Starfsmaður þarf virkilega að vilja kynnast barni af heilum hug, mynda sér ekki fyrirfram skoðun á barninu. Hann þarf að leyfa barni að vera sérfræðingur á sínum eigin skoðunum, tilfinningum, reynslu og upplifun. Barn er háð viðbrögðum starfsmanns út frá því að hinn fullorðni er í ákveðinni valdastöðu gagnvart barninu. Starfsmaður þarf stöðugt að muna að ígrunda hvað hann gerir, hvernig hann svarar barni og forðast hér og nú viðbrögð. Hann þarf að vera meðvitaður og aðgreina hvað sé hans skoðun og tilfinningar frá skoðunum og tilfinningum annarra.
(Sjá nánar á heimasíðu Jöklaborgar – Kenningar Beritar Bae)

Ég skilaboð og virk hlustun er samskiptaform sem byggir á gangkvæmri virðingu í samskiptum. Thomas Gordon var bandarískur sálfræðingur og var brautryðjandi í kennslu í samskiptahæfni einstaklingsins. Hann talaði um mikilvægi þess að nota virka hlustun í samskiptum „það að tala er silfrið og að hlusta sé gullið“. Áhersla er á að nota virka hlustun og ég skilaboð í Jöklaborg. „Ég skilaboð” byggja á því að talað er út frá fyrstu persónu í stað annarrar „ég vil að þú hættir að meiða hann Sigga”.
Með virkri hlustun er hlustað af hluttekningu og nákvæmni til að öðlast skilning á viðkomandi og meta viðhorf hans. Barnið er hvatt til að hugsa sjálft og finna eigin leiðir og lausnir, með því móti er ýtt undir samkennd, barnið er hvatt til að setja sig í spor annarra.

Víxlverkun – einstaklings og umhverfis er kenning sem Urie Bronfenbrenner bandarískur sálfræðingur setti fram. Hann taldi þróunarferli og þroskabraut einstaklings mótast af samspili milli einstaklings og umhverfis. Taldi hann að þetta samspil hefði áhrif m.a. á gjörðir barns. Barn getur sýnt neikvæða hegðun í ákveðnum aðstæðum, en verið kátt og hresst og leikið við hvern sinn fingur við aðrar aðstæður. Hann taldi einstaklinginn hafa gífurlega mikla aðlögunarhæfileika og var upptekinn af vitrænni þróun, tilfinninga og siðgæðisþroska einstaklingsins. Bronfenbrenner talar um að innihald vinnu og starfs með börnum skipti máli, að það sé innihaldsríkt og merkingarbært fyrir barnið. Hann vill meina að barn læri meira hjá þeim kennara sem það er í nánum tengslum við. Þegar um víxlverkun er að ræða þá er kennarinn að læra líka.

Nám barna
Sýn starfsmanna Jöklaborgar á nám barna er að hvert barn er tilbúið að læra strax frá fæðingu og jafnvel fyrr, börn eru hæfileikarík og tilbúin að takast á við lífið. Uppgötvunarnám þar sem barnið fær tækifæri til að gera sjálft, lærir af eigin reynslu, virkni og áhuga.
Megininntak kenningar Jean Piaget sem var þroskasálfræðingur og heimspekingur er að hann lítur á barnið sem rannsakanda sem öðlast upplýsingar í gegnum persónulega reynslu, og notar upplýsingarnar til að fá sína mynd af heiminum. Hann segir að barnið hafi meðfædda löngun til að takast á við umhverfi sitt til að öðlast þekkingu á því og að virkni einstaklingsins og áhugahvöt sé frumhvatning til athafna.
John Dewey var bandarískur heimspekingur, sálfræðingur og uppeldisfrömuður og mikill lýðræðissinni. Hann taldi að barnið ætti að læra af eigin reynslu, virkni og áhuga einnig að börn lærðu best ef þau fengju tækifæri til að velja sér viðfangsefni og sýna frumkvæði. Hann átti þessi frægu orð „Learning by doing”. Hann lagði mikla áherslu á að skapa náin og lifandi tengsl milli þjóðfélags og leikskólans, þar sem samvirkni barnsins, uppalandans og samfélagsins væri virt. Þannig fengi barnið tækifæri á að taka virkan þátt í samfélaginu, ekki bara með því að taka á móti heldur einnig með því að vera þátttakandi.
Ungversk/ameríski sálfræðingurinn Mihaly Csikszentmihalyi hefur sett fram kenninguna um flæði (flow). Hann telur að það veiti barni hamingju þegar nám þess fari þannig fram að barn nái að einbeita sér algerlega við verkefni og þegar það er áskorun hjá barni að vinna það. Barn þarf að fá tækifæri til að einbeita sér og dýpka sig í verkefnum. Reynslan sem barn öðlast í ferlinu er svo gefandi að barnið leggur töluvert á sig til að upplifa hana aftur. Það að hæfni barnsins fari saman við viðfangsefnið skiptir máli. Mikil áhersla er lögð á lýðræði í þessari hugmyndafræði.

Starfsmannastefna
Áhersla er lögð á liðsheild, jákvæðan starfsanda og lærdómsríkt samfélag þar sem virðing fyrir hverjum einstaklingi er í fyrirrúmi. Markmið starfsfólks er:
• Að samfélag starfsmanna og starfsgrundvöllur sé skýr og öllu starfsfólki ljós.
• Að viðurkennandi samskipti ríki meðal starfsfólks.
• Að starfsfólk tileinki sér samskiptaform sem felst í ,,virkri hlustun” og ,,ég skilaboðum”.
• Að líta á gagnrýni og leiðbeiningu sem tæki til að rýna til gagns.
• Að mannauður hvers og eins fái notið sín.
• Að leikgleði starfsfólks sé til staðar.

Starfsfólk er sammála um að eftirfarandi skiptir máli:
Að tekið sé vel á móti nýju starfsfólki, því kynnt starfið og helstu reglur sem viðkoma starfinu. Halda nýliðanámskeið fyrir nýtt starfsfólk innan mánaðar frá því það byrjar. Að starfsfólk veiti hvert öðru leiðbeiningu, hvatningu og stuðning sem skilar sér í betri líðan og árangri í starfi. Skipulögð starfsviðtöl leikskólastjóra við starfsfólk séu einu sinni á ári. Að skemmtinefnd starfsfólks sé starfandi. Að nýta skipulagsdaga m.a. í mat á starfinu, fræðslu, námsferðir, og þannig viðhalda símenntunaráætlun starfsmanna.