Leikur og nám

Í daglegu starfi leikskólans er lögð áhersla á að leikur barna fái viðeigandi tíma og nægjanlegt rými. Hlutverk starfsmanna er m.a. að vera vakandi fyrir þeim tækifærum sem upp koma í leiknum og nota þau til að kveikja áhuga hjá börnunum og styðja við nám þeirra. Starfsfólk þarf að stuðla að jafnrétti barna í leik, þeir eru fyrirmynd í lýðræðislegum starfsháttum og þurfa að hvetja börnin til að þróa færni sína í lýðræðislegum vinnubrögðum.

Leikurinn
Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfsins, lífstjáning og gleðigjafi barns. Frjáls og sjálfsprottinn leikur er barninu eðlislægur. Mikilvægt er að börn fái að njóta bernsku sinnar í leik. Í sjálfsprottnum leik gefst tækifæri til að læra samskiptareglur, félagsfærni og að gefa og þyggja ásamt því að málþroskinn eykst. Leikurinn endurspeglar reynsluheim barnsins sem og ímyndunarafl. Börn læra í samvinnu við önnur börn og þegar þau fá stuðning og hvatningu frá hinum fullorðnu. Fjölbreyttur efniviður verður að vera til staðar svo sköpunargleði og ímyndunarafl fái að njóta sín. Mikilvægt er að starfsfólk styðji við sköpunina sem er í leiknum með því að leyfa ímyndunarafli barna að þróast í leiknum. Leikurinn mótast oft af hugmyndauðgi barna og sköpunarmætti og hæfni þeirra til að sjá ný tengsl og nýjar leiðir. Gefa þarf leiknum rúman tíma. Leikur barna fer fram inni sem úti.

Val
Val er einu sinni í viku. Börn eldri en þriggja ára velja sér þá eftir ákveðnu kerfi að fara á aðrar deildir leikskólans til að leika. Áherslur valsins er: að barnið fái tilbreytingu í leikaðstæðum, að barnið kynnist húsnæðinu og möguleikum þess, að barnið kynnist betur öðrum börnum og starfsfólki leikskólans. Val barnanna er skráð og því hægt að fylgjast með þeirra vali. Börnin koma saman til að velja og eru notuð litaspjöld, hver deild með sinn lit, punktar eru á litaspjöldunum sem marka hve mörg pláss eru á hverri deild. Börnin fá klemmu með nafninu sínu á og þegar kemur röðin að þeim fara þau og setja klemmuna á einn punktinn. Þegar allir eru búnir að velja fara þau í lest með lestarmiða merkt þeirri deild sem þau eru á. Lestin fer af stað um húsið og börnin fara úr henni þegar stoppað er hjá þeirri deild sem þau völdu. Valið er í eina og hálfa klst.

Flæði
Flæði er ný nálgun leikskólans til að ná betur yfir grunnþætti menntunar s.s. málþroska, læsi og lesskilning, verk-, tækni- og listnám, lýðræði, jafnrétti og mannréttindi – fjölmenningu. Flæði er einu sinni í viku þar sem börnin geta valið sér svæði þar sem þessir þættir náms eru í boði. Á svæðunum eru verkefni og tilboð sem tengjast þessum þáttum.

Könnunarleikur – Yngstu börnin
Í könnunarleik sem er fyrir börn á aldrinum eins árs til þriggja ára eru börnin rannsakendur. Þau eru nokkur saman í hóp með óhefðbundið leikefni s.s. kökubox, eggjabakka, pappahólka, köngla, gamla lykla og ýmis plastílát. Börnin skoða, handfjatla, rannsaka og gera allslags tilraunir með þennan efnivið í ákveðin tíma án íhlutunar starfsmanns sem situr til hliðar. Í könnunarleik fá börnin tækifæri til að uppgötva eiginleika og eðli hluta á eigin forsendum og örva öll skynfæri, æfa notkun orða og hugtaka í rólegu umhverfi. Elinor Goldschmied sem er breskur uppeldisfræðingur útfærði þessa leikjaaðferð.
Verkefnavinna

Öll börn eru í verkefnastundum þar sem verið er að vinna að ýmsum verkefnum tengt aldri og getu barna. Unnin eru þematengd verkefni, málrækt, læsi, stærðfræði, samskipti, ritun, listsköpun og ýmis einbeitingarverkefni. Börnunum er ýmist skipt í hópa eftir aldri eða blandaður aldur eftir því hvað verið er að vinna.

Leikjastund
Öll elstu börn leikskólans fara saman í Leikjastund í sal einu sinni í viku. Farið er í skipulagða hreyfi- og söngleiki. Markmið Leikjastunda er m.a. að efla félagsfærni barna, að öll elstu börn leikskólans hafi tækifæri að leika og læra saman í stærri hóp og kynnist hvert öðru. Að þau fái tækifæri til að gleðjast saman, vinna saman og læra að taka tillit til hvers annars.

Vinastund
Einu sinni í viku hittast allir í leikskólanum, börn og starfsmenn í salnum og syngja saman. Börn hverrar deildar skiptast á að vera með atriði vikulega. Markmið Vinastundar er að hitta alla sem eru saman í leikskólanum, hafa gaman saman og að læra hvert af öðru. Allar Vinastundir byrja og enda eins, með söng sem allir syngja saman. Oft er Vinastund líka notuð sem vettvangur nýrra tíðinda. Börnin læra nýja texta og söngva.

Hreyfistund
Öll börn leikskólans fara í Hreyfistund í sal einu sinni í viku. Börnin fá útrás fyrir hreyfingu sem reynir á styrk þeirra, þol og snerpu. Markvisst er unnið með hreyfifærni og líkamsvitund ásamt því að styrkja sjálfsmynd barna. Hreyfistundir eru mismunandi eftir aldri barnanna.