Í gegnum leikinn lærum við! Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfsins, lífstjáning og gleðigjafi barns. Frjáls og sjálfsprottinn leikur er barninu eðlislægur. Leikurinn endurspeglar reynsluheim barnsins sem og ímyndunarafl. Í sjálfsprottnum leik gefst tækifæri til að læra samskiptareglur, félagsfærni og málþroski eykst. Efniviður verður að vera til staðar sem eflir sjálfsprottinn leik og gefa þarf tíma til leiksins.

Námssvið leikskólans eru fjögur, Læsi og samskipti, Heilbrigði og vellíðan, Sjálfbærni og vísindi og Sköpun og menning. Þau eiga að vera samþætt og samofin öllu starfi leikskólans og taka mið af grunnþáttum menntunar. Þau byggjast á skapandi og gagnrýnni hugsun og tengjast leik og daglegum athöfnum í leikskólanum.

Læsi og samskipti

Börn eru félagsverur og hafa ríka þörf fyrir samskipti við aðra, þau nota ýmsar leiðir til tjáskipta. Í gefandi samskiptum og leik styrkjast félagsleg samskipti. Læsi í víðum skilningi er mikilvægur þáttur í öllum samskiptum. Læsi í leikskóla felur í sér að auka þekkingu, leikni og hæfni barna til að geta lesið í umhverfi sitt og tjá upplifun sína, tilfinningar og skoðanir á fjölbreyttan hátt.

Starfsmenn í leikskólum þurfa að skapa aðstæður fyrir barnið svo það fái tækifæri til að vinna úr reynslu sinni í leik og skapandi starfi og leysa úr ágreiningi við jafningja á friðsamlegan hátt. Einnig að börn fái tækifæri til að tjá sig með fjölbreyttum hætti og velta vöngum yfir eigin samfélagi og menningu og menningu annarra þjóða.

Börn þurfa að fá að njóta þess að hlusta á og semja sögur, ljóð, þulur og ævintýri og ræða málefni og hlusta á aðra. Þau þurfa að fá að leita eftir merkingu orða og orðasambanda, ríma og átta sig á hljóðum stafa. Þá þurfa þau að geta nálgast upplýsingar með ólíkum leiðum og móta sér hugmyndir um þær.

Daglega er lesið fyrir börnin, notaðar eru opnar spurningar sem hvetja börn til að segja frá og tjá sig. Kennarar nota tækifæri sem gefast til að ræða hluti og nota innihaldsríkt mál og orðaforða. Þeir byggja samtöl á gagnvirkum samskiptum við börnin og stofna til heimspekilegra umræðna.

Áhersla er lögð á að nota „tákn með tali“ með börnunum, sérstaklega með yngstu börnunum. Námsumhverfi leikskólans er mjög læsishvetjandi og styður við máltöku og málþroska barna þar sem innihaldsrík samskipti eru viðhöfð. Sjónrænt skipulag er á hverri deild sem auðveldar börnum að átta sig á tímaröð atburða dagsins og þannig að lesa í umhverfi sitt. Ritmál er sýnilegt á öllum deildum, unnið með sögur, söng, ljóð og ævintýri.

„Læsisstefna skóla- og frístundasviðs „Lesið í leik“ er stefnumarkandi fyrir starfsmenn leikskóla í Reykjavík. Þar kemur fram að huga þurfi að því að börnum fari stöðugt fram í öllum þáttum máls og varast að einblína á einstaka þætti umfram aðra. Bernskulæsi er skilgreint þannig að það feli í sér ákveða færni, þekkingu og viðhorf sem þroskast sem undanfari eiginlegs lestrar og ritunar. Bernskulæsi felur í sér skilning á læsistengdum hugtökum og tekur til hefðbundinna læsisþátta; hljóðkerfisvitundar, bókstafaþekkingar, umskráningar, orðaforða, málskilnings og ritunar. (Lesið í leik, bls.3).

Læsisáætlun Jöklaborgar er unnin út frá læsisstefnu skóla- og frístundasviðs. Þar koma fram læsismarkmið Jöklaborgar sem eru:

  • Að efla læsi í víðum skilningi
  • Að efla samskiptafærni og læsi á fjölbreytta menningu
  • Að stuðla að lýðræðislegum samskiptum
  • Að stuðla að mismunandi tjáningarleiðum
  • Að stuðla að umhverfislæsi

Ritmálsmarkmið Jöklaborgar eru:

  • Að styðja við áhuga og það sem fangar barnið varðandi ritmál.
  • Að viðhalda markvissu ritmálsumhverfi sem styður börnin í námi um tilgang bókstafa og orða.

Jöklaborg er þátttakandi í verkefninu „Læsi allra mál“ sem er samvinnuverkefni leikskóla og grunnskóla í Breiðholti undir stjórn fagaðila í Þjónustumiðstöð Breiðholts. Markmið verkefnisins er að samræma leiðir til að efla þjálfun og kennslu í leik- og grunnskólum Breiðholts varðandi mál og læsi. Sérkennslustjóri og þrír deildarstjórar sitja í teymi sem sér um og skipuleggur þennan þátt.

Heilbrigði og vellíðan

Í leikskóla eiga börn að læra um og tileinka sér heilbrigða lífshætti, hollt mataræði, hvíld, hreinlæti og hreyfingu. Hreyfing er börnum eðlislæg og stuðlar að vellíðan, hún getur veitt gleði og ánægju. Hún er stór þáttur af daglegu starfi í leikskóla og mikilvægt er að veita börnum tækifæri til að hreyfa sig bæði með skipulögðum hreyfistundum og frjálst. Jákvæð samskipti er lykilþáttur í því að skapa vellíðan og hefur áhrif á heilbrigði og velferð. Leikskóli með skólabrag þar sem viðhöfð eru jákvæð samskipti, vinátta, virðing, samhygð og umbyrðarlyndi eykur líkur á vellíðan.

Starfsmenn leikskólans eru fyrirmyndir í allri sinni vinnu. Þeir þurfa að stuðla að heilbrigði og vellíðan með margvíslegum hætti. Þeir þurfa að vinna að því að styrkja sjálfsmynd barna með því að efla gagnrýna hugsun og styrkja hvert barn í þeirri sýn að enginn er eins. Starfsmenn þurfa að sýna umhyggju, sjá um persónulega umhirðu barnanna, sýna tilfinningalegt jafnvægi og hafa viðurkennandi og jákvæð samskipti að leiðarljósi. Ástunda fjölbreytta hreyfingu með börnunum svo og slökun og hvíld. Hreinlæti er mikilvægur þáttur í starfi leikskólans. Handþvottur er mikilvægur sérstaklega fyrir matmálstíma og eftir salernisferðir svo og útiveru. Útivera er áætluð alla daga vikunnar og þarf að gæta að því að hún sé ögrandi og krefjandi fyrir börnin. Skipulagðar gönguferðir eru farnar. Farið er í vettvangsferðir með litla hópa og einnig er ferðahópur í flæði sem fer á vit ævintýra og skoðar náttúruna og það sem fyrir augu ber. Salur leikskólans er mikið notaður til hreyfingar þar sem hreyfistundir eru fyrir öll börn. Ýmist er um að ræða skipulagðar stundir eða farið í leiki, leikið frjálst eftir því hvað börnin velja. Íþróttadagur er tvisvar á ári þar sem leikskólanum er breytt í allsherjar þrautabraut og börnin spreyta sig á henni.

Elstu börn leikskólans fara ásamt starfsmönnum leikskólans einu sinni í viku yfir vetrartímann í íþróttasal Seljaskóla og eru þar í fjölbreyttum íþróttum á vegum íþróttafélagsins ÍR. Þetta samstarf við ÍR er endurskoðað reglulega.

Áhersla er lögð á að matmálstímar séu góð félagsleg stund þar sem vellíðan og heilbrigði er viðhaft og þar fer líka fram mikið nám, bæði málörvun og fræðsla. Þar eiga starfsmenn og börn samtal um heima og geima, um matinn, hollustu matarins og hvatt er til þess að smakka matinn.

Hafðar eru til hliðsjónar handbækurnar „Handbók fyrir leikskólaeldhús“ og „Gæðahandbók skólaeldhúsa“ varðandi matartilbúning og gæðaeftirlit.

Heilsueflandi Breiðholt
Þróunarverkefnið „Heilsueflandi Breiðholt“ er verkefni sem Jöklaborg ásamt fleiri starfsstöðvum og félagasamtökum í Breiðholti taka þátt í. Markmiðið er að stuðla að heilbrigði og velferð í samfélaginu og innleiða forvarnastefnu ásamt tímasettri aðgerðaráætlun. Aðaláhersla er lögð á fjóra þætti, næringu, hreyfingu, líðan og lífsstíl. Hver þáttur er tekinn fyrir hvert skólaár. Verkefnastjóri frístunda- og félagsauðs á þjónustumiðstöð Breiðholts hefur umsjón með verkefninu og leiðir vinnu við aðgerðaráætlunina. Stefnt er að því að allir leik- og grunnskólar ásamt Fjölbrautaskólanum í Breiðholti verði heilsueflandi skólar. Áætlað er að innleiðing og mat á verkefninu taki fjögur ár.

Sjálfbærni og vísindi

Leikskólinn hefur það hlutverk að styðja við fróðleiksþorsta barna með því að fylgjast með og hlusta eftir áhugasviði barnanna. Kennarar í leikskóla þurfa að undrast með börnunum, ýta undir forvitni, ígrundun og vangaveltur og hvetja þau til að spyrja spurninga og leita mismunandi lausna. Börn eru sífellt að beita ýmsum aðferðum við að kanna og auka skilning sinn á umhverfi sínu. Þau horfa, snerta, bragða, handleika, flokka, bera saman, rannsaka og draga ályktanir. Mikilvægt er að kenna börnum að bera virðingu fyrir umhverfi sínu og náttúru og skapa þeim tækifæri til að upplifa og njóta. Hlutverk kennara er að kenna börnum að átta sig á því hvernig vistspor þeirra og nærsamfélag geta stuðlað að sjálfbærri þróun.

Í Jöklaborg eru börnin hvött til að velta fyrir sér umgengni sinni við náttúruna og bera virðingu fyrir henni og umhverfinu í kringum sig. Börnin eru hvött til að skoða, þreifa á og rannsaka umhverfi sitt s.s. lífverur í umhverfinu og lífshætti þeirra og fara vel með viðkvæman gróður. Ýmislegt er gert til að sýna börnunum mikilvægi þess að fara vel með hluti, s.s. slökkva ónauðsynlegt ljós til að spara orku, láta vatnið ekki renna ef ekki er verið að nota það, safna saman endurnýtanlegum efnivið og fara með í endurvinnslu. Starfsmenn og börn eru þátttakendur í „Grænum skrefum“ sem snýst, m. a. um að efla vistvænan rekstur starfsstaða Reykjavíkurborgar. Í útikennslu og ferðahópum er farið í ýmsar ferðir, náttúran skoðuð og rannsökuð, börnin upplifa náttúruna og njóta hennar. Vísindastarf er fjölbreytilegt, s.s. eru börnin að átta sig á rými, fjarlægðum og áttum, skoða eiginleika ýmissa efna og hluta og velta vöngum yfir möguleikum og takmörkunum tækninnar. Börnin leika með vatn, t.d. setja vatn í form, poka og frysta, rannsaka og upplifa svo þegar frosið vatn er að bráðna. Þau rannsaka hvað sekkur og hvað flýtur. Börnin taka stöðu veðurs daglega og velta vöngum yfir í hvaða fatnað skuli klæðast til útiveru. Þar læra þau ýmis hugtök s.s. úrkoma, væta, súld, haglél, hundslappadrífa, úði, steypiregn.

Yngstu börnin í leikskólanum handfjatla ýmis óhefðbundið leikefni í könnunarleik. Þar eru þau að rannsaka og uppgötva á eigin spýtur eiginleika leikefnis, s.s. kökubox, lykla, keðjur sem heyrist mikið í og svo pappahólka, rör, hárrúllur og skeljar. Í könnunarleik eru börnin að fylla og tæma, setja saman, velja og hafna, finna hvað er líkt og ólíkt, stafla hlutum og láta þá halda jafnvægi. Unnið er með stærðfræðleg viðfangsefni, s.s. tölur, tákn og mynstur. Börnin leika gjarnan með að flokka og raða hlutum þau telja diska og hnífapör þegar lagt er á borð. Unnið er með tölur og talnaskilning. Einingakubbar er opinn efniviður og er á öllum deildum leikskólans. Þeir veita tækifæri til ýmiskonar rúmfræðilegra tilrauna eins og að byggja hús úr þeim. Þeir eru notaðir í byggingaleik þar sem börnin vega og meta hve langa kubba þau þurfa og geta notað. Stærðfræðileg hugtök eru gjarnan notuð þar sem börnin eru að telja hvað marga kubba þarf, hvað margir eru beinir eða bognir. Hlutverk kennara er að skapa tækifæri til að ígrunda og dýpka stærðfræðina sem sprettur úr daglegu umhverfi barnsins.

Sköpun og menning

Sköpun og menning eru samofin öllu starfi í leikskóla og mikilvægt er að starfsfólk geri barninu kleift að nálgast viðfangsefnin frá mörgum hliðum og á eigin forsendum. Sköpun er mikilvægur þáttur í lífi barnsins og hvetja skal til skapandi hugsunar og sjálfstæðra vinnubragða hjá börnunum. Sköpun byggist á uppgötvun, gagnrýnni hugsun, rannsókn og ótal aðferðum sem sífellt opna nýjar leiðir. Starfsfólk þarf að vera forvitið með börnunum og hafa getu í að leika af fingrum fram. Börn eru gullmolar og er það hlutverk kennara að fá gullið til að glóa. Kennarar þurfa að gefa barninu tækifæri til að njóta þess að taka þátt í skapandi ferli og finna ánægju og gleði yfir eigin sköpunarkrafti. Þeir þurfa að bjóða upp á margvíslegan efnivið og nýta fjölbreytta tækni til sköpunar.

Í Jöklaborg er sérstök áhersla lögð á sköpun og er það eitt af þremur leiðarljósum leikskólans, sköpun í víðum skilningi, þ.e. skapandi í hugsun, gjörðum og í verki. Sandkassinn úti er uppspretta sköpunar. Þar skapa börnin með sandi og vatni. Elstu börnin hafa verið í samstarfi með leirkerasmið í hverfinu sem hefur kennt þeim ýmislegt um hvernig hægt sé að vinna með leir og boðið þeim á vinnustofu sína ásamt því að bjóða þeim að sýna verk eftir þau á vinnustofunni sinni. Börnin gera árlega sögu- og ljóðabækur. Áhersla er lögð á að börnin njóti þess að taka þátt í skapandi ferli og finni ánægju og gleði yfir eigin sköpunarkrafti. Notaður er fjölbreyttur efniviður til sköpunar í allskonar verk hvort heldur er tvívíddarverk eða þrívíddarverk. Má nefna málningu, þurra og blauta, fingramálningu, vatnsliti, leir og steinleir til brennslu, gips, vír og vírnet, lím, límlakk, glerbrot í listaverk sem síðan er brennt í leirbrennsluofni. Börnin nota garn í vefnað sem þau hafa litað úr jurtum náttúrunnar og ýmis endurnýtanlegur efniviður er notaður í vinnu barna. Börnin þurfa að fá tækifæri til að læra texta, þulur og ævintýri og taka þátt í söng ásamt því að njóta bókmennta og fjölbreyttrar menningar og lista. Börnin sýna afurðir vetrarins á opnu húsi þar sem sjá má hugmyndir þeirra sem eru óþrjótandi.

Menning leikskólans tengist leik barna, lýðræði, skapandi starfi og þjóðmenningu. Börnin þurfa að fá tækifæri til að vinna með listafólki á ýmsum sviðum menningar og lista. Þau þurfa að fá að skapa og tjá upplifun sína, s.s. í myndlist, tónlist, dansi og leikrænni tjáningu þannig að sköpunargleði þeirra fái notið sín. Börnin þurfa að fá að taka virkan þátt í að móta menningu leikskólans með hátíðum og viðburðum sem tengjast barnamenningu. Menning getur verið ólík og ber að virða það, fögnum fjölbreytileikanum og slíkt viðhorf ætti að ríkja innan veggja leikskóla. Farið er í ýmsar vettvangsferðir s.s. Árbæjarsafn, Fjölskyldu- og húsdýragarðinn og haldið er upp á ýmsa daga sem tengist þjóðarmenningu okkar, s.s. fullveldisdaginn 1. desember og bóndadaginn. (Sjá nánar bls. 22 um samstarfsaðila).