Mat á námi barna, velferð, þroska og færni þeirra er framkvæmt markvisst og reglulega. Það er samofið daglegu starfi leikskólans og er einstaklingsmiðað, unnið í samstarfi við foreldra og börnin eftir því sem við á. Leikskólinn notar fjölbreyttar aðferðir við að meta áhuga barnanna, nám þeirra og almenna stöðu.

Matsaðferðin „Barnið í brennidepli“ er höfð til hliðsjónar. Notaðar eru skráningar, gátlistar, viðtöl við börnin, teikningar barna og ljósmyndir úr starfinu. Matið nær til náms og alhliða þroska barns, sjálfstæðis, tjáningar og samskipta, áhugasviðs, þátttöku í leik úti og inni, félagsfærni og samkenndar, frumkvæði, sköpunarkrafts og vali barna á svæði. Samskiptabækur sem fara á milli heimila og leikskóla eru notaðar fyrir einstök börn, daglega eða eftir þörfum. Notast er við „Gátlista um jákvæða sjálfsmynd og félagsfærni“ fyrir elstu börn leikskólans sem síðan fylgir þeim í grunnskólann. Grunnspurningarnar hvað, hvernig og hvers vegna eru notaðar ásamt hvernig gekk, hvaða umbóta er þörf, hvernig vitum við það? Heimagerðir spurningalistar eru líka notaðir. Niðurstöður mats á stöðu barna eru lagðar til grundvallar í foreldraviðtölum og á þeim byggjast einstaklingsnámskrár sem deildarstjóri og foreldrar gera saman.

Hljóm-2 hljóðkerfisvitundarpróf er lagt fyrir öll elstu börnin í september/október, prófið er í leikjaformi. Prófið er lagt fyrir til að meta og greina þau börn sem eru í áhættu fyrir síðari lestrarerfiðleika. Það kannar hljóðkerfis- og málmeðvitund barna, þ.e. hvort barnið geri sér grein fyrir að tungumál hefur ákveðið form og að það skiptir ekki einungis máli hvað er sagt, heldur einnig hvernig það er sagt. Prófið er endurtekið sex mánuðum síðar hjá þeim börnum sem koma út með slaka færni. Niðurstöðurnar eru nýttar til að skipuleggja áframhaldandi málörvun og vinnu til að styðja við hvert barn. Samþykki foreldra fyrir að taka prófið er nauðsynleg.

TRAS skráningarlistinn er notaður til að fylgjast með stöðu tveggja til fimm ára barna, hann er ekki málþroskapróf heldur athugun í skráningarformi á málhegðun og málþróun hjá börnum á ákveðnum aldri. Með TRAS skráningunni er skimað eftir frávikum í mál- og félagsþroska barnanna með fyrirbyggjandi íhlutun í huga. Tvisvar á ári með sex mánaða millibili skrá leikskólakennarar á skráningarblöð svör við ákveðnum spurningum um málþroska barna og eru þrjú færnisvið skráð: Samleikur, tjáskipti/ samskipti og athygli/einbeiting, málskilningur og málmeðvitund. Framburður, orðaforði og setningamyndun.

EFI-2 málþroskaskimunarpróf er lagt fyrir öll börn á fjórða ári. Það er ætlað til að finna þau börn sem víkja mest frá meðalfærni jafnaldra í málskilningi og máltjáningu svo hægt sé að grípa inn í með markvissri málörvun í leikskólanum og heima.

Nám án aðgreiningar

Eitt meginhlutverk leikskóla er að stuðla að almennri menntun barna, einnig að tryggja jafnræði allra barna í öllu leikskólastarfi óháð líkamlegu og andlegu atgervi. Börn sem þurfa sérstakan stuðning eða sérkennslu vegna fötlunar, tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika eiga rétt á slíkri aðstoð. Þarf þá viðurkenndur greiningaraðila að meta og staðfesta slíka aðstoð. Í Jöklaborg ríkir jákvætt viðhorf til margbreytileikans. Áhersla er á virðingu og viðurkenningu í garð hvers einstaklings og rétt hvers barns til leiks og menntunar. Tekið er mið af hugmyndafræði náms án aðgreiningar. Samvinna er við skóla- og sérfræðiþjónustu Þjónustumiðstöðvar Breiðholts, Greiningarstöðvar og fleiri sérfræðinga eftir því sem við á hverju sinni.

Sérkennsla

Í Jöklaborg er leikskólasérkennari, sérkennslustjóri sem heldur utan um alla sérkennslu í leikskólanum, þ.e. leiðbeinir sérkennsluaðilum, foreldrum og ber ábyrgð á einstaklingsnámskrám þeirra barna og að þeim sé framfylgt. Lögð er áhersla á að bregðast fljótt við ef grunur vaknar um frávik og snemmtæk íhlutun höfð að leiðarljósi í samstarfi við foreldra. Sérkennsla í leikskólanum fer bæði fram einstaklingslega og í hópum eftir því hvað hentar best hverju sinni. Lögð er áhersla á að íhlutun fari sem mest fram í daglegu starfi og leik. Fundir eru reglulega með sérkennsluráðgjafa, sálfræðingi og félagsráðgjafa Þjónustumiðstöðvar Breiðholts þar sem rætt er um úrræði og framvindu barnanna. Ráðgjöf til foreldra er veitt endurgjaldslaust frá Þjónustumiðstöð Breiðholts, það sem fer fram í viðtölum er trúnaðarmál.

Mat á leikskólastarfi

Mat á leikskólastarfi skal framkvæmt með hliðsjón af lögum, reglugerð og aðalnámskrá leikskóla. Matinu er skipt í innra og ytra mat og er liður í að framkvæma lögbundið eftirlitsstarf skóla og skólayfirvalda. Tilgangur slíks mats er að tryggja réttindi barna og stuðla að umbótum í starfi leikskólans.

Ytra mat

Á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar hefur verið þróað matstæki til að meta gæði leikskólastarfs en í lögum um leikskóla frá 2008 eru ákvæði um mat og eftirlit sveitarfélaga með leikskólastarfi. Ítarleg viðmið um gæði leikskólastarfs voru unnin út frá opinberri menntastefnu sem birtist í lögum um leikskóla og aðalnámskrá leikskóla (2011). Árlega eru nokkrir leik- og grunnskólar fengnir í slíkt heildarmat. Ytra mat felst í úttekt á einstökum þáttum starfs leikskólans sem Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar sér um að gera. Matið hefur tvennskonar tilgang. Annars vegar að auka gæði leikskólastarfs og styrkja innviði leikskóla með því að draga fram styrkleika og benda á tækifæri til umbóta. Hins vegar að veita skólayfirvöldum upplýsingar um gæði leikskólastarfsins og hvernig leikskólar framfylgja lögum, reglugerðum, aðalnámskrá leikskóla og stefnu borgarinnar í menntamálum.

Innra mat

Innra mat er sjálfsmat leikskólans sem framkvæmt er af starfsmönnum hans, börnum og foreldrum. Tilgangur þess mats er að leggja faglegan grundvöll, skoða hverjir séu styrkleikar í starfi og hvað má betur fara og vinna þannig að því að auka gæði starfsins. Matið nær til stjórnunar, kennslu, námskrafna, námsmats og samskipta. Innra mat fer fram á deildarstjórafundum, deildarfundum, skipulagsdögum. Daglega er fylgst með alhliða þroska barna, námi þeirra, velferð og færni. Upplýsingaöflun um stöðu barnsins er þannig samofin daglegu starfi leikskólans. Matsáætlun er gerð fyrir hvert skólaár einnig fyrir lengri tíma. Foreldrar eru upplýstir um niðurstöðu mats.

Matsáætlun Jöklaborgar fyrir næstu þrjú skólaár.
Þessir þættir starfsins munu verða metnir:

 • Uppeldisfræðilegar skráningar
 • Þátttaka barna í leik inni og úti
 • Jafnréttisstefna Jöklaborgar
 • Samstarf leik- og grunnskóla
 • Félagsfærni/líðan barna/samskipti
 • Leikurinn
 • Starfsþróun starfsmanna
 • Nám, samskipti, samkennd og færni barna
 • Starfsmannahandbók
 • Áhugasvið barna og skoðun þeirra á námi þeirra
 • Frumkvæði og sköpunarkraftur barna