Í Jöklaborg er lögð áhersla á samstarf við foreldra sem byggist á gagnkvæmu trausti, skilningi og að foreldrum finnist þeir velkomnir í leikskólann. Áhersla er lögð á að vinna saman að því að gera nám og uppeldi barnanna árangursríkt og að gleði sé hluti tilverunnar. Í Jöklaborg er áhersla lögð á gott samstarf við alla foreldra með velferð barnsins að leiðarljósi og að upplýsingastreymi sé gott og gagnkvæmt. Styrkur hvers leikskólasamfélags felst í fjölbreyttum og virkum foreldrahópi.
Lögð er áhersla á að tekið sé vel á móti börnum og foreldrum dag hvern. Heimasíða leikskólans hefur að geyma ýmsar upplýsingar, myndir og fréttir um líðandi stund og er uppfærð eftir bestu getu. Upplýsingar eru skráðar á hverjum degi á upplýsingatöflu sem er við hverja deild. Fréttabréf og tölvupóstur er sendur til foreldra með reglulegu millibili.

> Sjá bæklinga Velkomin til samstarfs um leikskólabarnið og Fjölskylda og leikskóli – Handbók um samstarf

Fjölmenning

Leikskólastarf í nútíma samfélagi þarf að endurspegla þann margbreytileika sem þar er daglega. Kennslu- og starfshættir þurfa að vera fjölbreyttir og gæta þarf að því að komið sé á móts við þarfir allra barna. Starfsfólk leikskólans þarf að vera vakandi fyrir því að börn með annað móðurmál en íslensku fái tækifæri til að þróa með sér virkt tvítyngi, þ.e. að það öðlist færni til að viðhalda og efla sitt móðurmál um leið og það nær árangri í íslensku. Líta þarf svo á að öll menning sé „fjölmenning“ og virða og viðurkenna ólíkan bakrunn barna og menningu. Í kennslu- og starfsháttum Jöklaborgar er gert ráð fyrir því að mæta þörfum allra barna og fjölskyldna þeirra. Áhersla er á að sækja þá ráðgjöf, stuðning og fræðslu sem þarf hverju sinni m.a. ráðgjöf hjá verkefnastjóra fjölmenningar skóla- og frístundasviðs. Í fyrsta foreldraviðtali kemur fram hver staða barns er varðandi íslenskukunnáttu, líðan barnsins, þroska og getu. Túlkur er fenginn í þeim tilfellum sem þörf er á hvort heldur er í viðtölum eða með barni sem er að stíga sín fyrstu skref inn í leikskólann. Unnið er markvisst að því að byggja upp jákvæð, viðurkennandi samskipti milli foreldra, barns og starfsfólks leikskólans og gagnkvæma virðingu milli heimilis og leikskóla.

Ákveðinn starfsmaður, lykilpersóna er með barninu í fyrstu. Notaðar eru myndir af daglegum athöfnum og þær útskýrðar. Unnið er markvisst að því að kenna íslensku sem annað tungumál jafnframt að styðja við og efla móðurmál barns í samvinnu við foreldra. Bókin mín (sjá nánar bls. 18) er mikið notuð þar sem barnið getur skoðað myndir af fjölskyldu sinni og ýmsum viðburðum tengdum henni, einnig til að ná tengslum við barnið þá er leikurinn notaður m.a. til að leggja inn íslensk orð. Ýmsar leiðir eru farnar til að hafa samskipti, s.s. túlkaþjónusta, símatúlkun eða túlkur á staðinn, tvítyngdir starfsmenn, orðalistar og spjaldtölvur. Þá er sjónrænt skipulag á hverri deild sem hjálpar barni að átta sig á röðun atburða dagsins og getur síðan lært hvað þeir heita. Þekking er byggð upp með því að barnið fái námshvetjandi lærdómsumhverfi, þ.e. að það fái að rannsaka, skoða, skilja og ræða og leikefni sé fjölbreytt.

Aðlögun

Aðlögun foreldris og barns að leikskólasamfélaginu byrjar í raun löngu áður en barnið kemur í leikskólann. Foreldrar fá staðfestingu bréflega um að barnið hafi fengið inni í leikskóla og með sinni staðfestingu um að þiggja plássið er það frágengið. Í samtali við stjórnendur leikskólans er síðan ákveðin dagsetning upphafsdags leikskólagöngunnar. Kynningarfundur er að vori fyrir alla foreldra sem eru að byrja með barnið sitt í leikskólanum. Á þeim fundi er kynnt starf leikskólans og hvernig aðlögun barnanna sé háttað ásamt því að skoða húsakynni. Áður en barnið byrjar í leikskólanum er foreldraviðtal þar sem farið er yfir sögu barnsins og undirritaður dvalarsamningur ásamt öðrum gögnum. Í viðtölum þar sem annað tungumál en íslenska er töluð er boðið uppá túlkaþjónustu. Aðlögun barns við upphaf leikskólagöngu er mislöng eftir aldri og reynslu hvers barns. Í Jöklaborg er miðað við að hún taki eina viku þar sem fyrsta heimsókn er ein klukkustund og lengist eftir því sem líður á vikuna. Foreldrar koma að skipulagi aðlögunar og er unnið að því sameiginlega að finna bestu leiðina svo aðlögun barnsins gangi vel. Meðan á aðlögun stendur gefst tími til að kynnast og hafa gagnkvæmt upplýsingastreymi um barnið.

Form aðlögunar
Dagur 1 Foreldrar koma með barninu og dvelja í eina klukkustund ca. kl. 10:00-11:00. Starfsmaður tekur á móti barninu og er með því allan tímann.
Dagur 2 Starfsmaður tekur á móti barninu og er foreldri með barninu allan tímann sem er aðeins lengur en fyrsta dag.
Dagur 3 Foreldri dvelur í stutta stund með barninu og kveður síðan barnið og er í burtu í smá stund. Hversu löng sú stund er fer eftir mati starfsmanns og foreldris á því hvað barninu er fyrir bestu. Hringt er í foreldra ef tíminn er of langur fyrir barnið.
Dagur 4 Foreldrar kveðja barnið fljótlega eftir að barnið kemur og tími þess lengist frá deginum áður. Haft er samband við foreldra ef umsaminn tími reynist barninu of langur.
Dagur 5 Barnið dvelur nánast fullan tíma í leikskólanum.

Aðlögun milli deilda

Þegar börn flytjast á milli deilda leikskólans tekur það oftast u.þ.b. viku. Reynt er að skipuleggja flutning á nýju deildina þannig að nokkur börn fari saman á sama tíma og veita þannig hvert öðru stuðning. Starfsmenn deildanna sjá um aðlögunina. Börnin fara í heimsókn á viðkomandi deild stutta stund í einu og svo lengist tíminn dag frá degi. Aðlögun milli deilda er ekki síður mikilvæg en fyrsta aðlögun. Börnin hafa farið á valtíma á milli deilda og kynnst húsnæðinu, börnum og starfsfólki. Foreldrum er boðið viðtal við deildarstjórann á nýju deildinni stuttu eftir að barnið byrjar þar.

Foreldraráð

Samkvæmt lögum skal kjósa foreldraráð í leikskólum og skal leikskólastjóri hafa frumkvæði að kosningu í ráðið. Foreldraráð er kosið í september ár hvert og í því sitja að lágmarki þrír foreldrar ásamt leikskólastjóra til eins árs í senn. Foreldraráð setur sér starfsreglur.

Tilgangur foreldraráðs er að gefa umsagnir til leikskóla og nefnda um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða starfsemi leikskólans. Þá skal ráðið fylgjast með framkvæmdum skólanámskrár og annarra áætlana innan leikskólans og kynningu þeirra fyrir foreldrum. Foreldraráð hefur umsagnarrétt um allar meiriháttar breytingar á starfinu.

Foreldrafélag

Í Jöklaborg er starfandi foreldrafélag og í stjórn þess sitja foreldrar sem kosnir eru á aðalfundi foreldrafélagsins, fulltrúi starfsfólks situr í stjórn og miðlar gagnkvæmum upplýsingum. Foreldrafélag Jöklaborgar er fyrir alla foreldra/ forráðamenn barna leikskólans og er markmið þess meðal annars að tryggja velferð barnanna. Stjórn foreldrafélagsins skipuleggur árvissa viðburði sem ákveðnir eru hverju sinni. Foreldrar í foreldrafélaginu greiða ákveðna upphæð í Barnasjóð tvisvar á ári sem notað er í skipulagða viðburði á vegum foreldrafélagsins ár hvert.

Foreldraviðtöl

Skipulögð foreldraviðtöl eru eftirfarandi yfir skólaárið. Fyrsta foreldraviðtal er áður en barn byrjar í leikskólanum við stjórnendur leiksólans. Stuttu eftir aðlögun barns, hvort heldur er um að ræða nýtt barn sem er að byrja eða barn sem færist á aðra deild, er boðið foreldraviðtal við deildastjóra. Þar gefst tækifæri að ræða hvernig aðlögun hafi gengið, um líðan barnsins og fleira. Í janúar/febrúar á hverju ári er öllum foreldrum boðið í foreldraviðtal. Í því viðtali er farið m.a. yfir stöðu barna, þroska, færni og gerð einstaklingsáætlun fyrir barnið. Kveðjuviðtal er að vori fyrir foreldra þeirra barna sem eru að fara í grunnskóla. Þar er farið yfir stöðu barnsins og upplýsingar sem fara frá leikskólanum í grunnskólann. Foreldrar geta alltaf beðið um viðtal við deildarstjóra/leikskólastjóra eftir þörfum.

Foreldrafundir

Tvisvar á ári, að hausti og að vori eru foreldrafundir. Að hausti er farið yfir Starfsáætlun Jöklaborgar, upplýsingar um hvað er áætlað að vinna að það skólaárið, hvaða umbætur verður unnið með og kosið í foreldraráð. Síðan er fundur að vori fyrir foreldra nýrra barna þar sem fram fer kynning á stefnu og starfi leikskólans og húsnæði leikskólans skoðað.

Bókin mín

“Bókin mín” er bók sem barnið á en leikskólinn ásamt foreldrum/aðstandendum útbýr og er samvinnuverkefni leikskólans og foreldra. Tilgangur bókarinnar er að styrkja sjálf barnsins og styðja. Barnið hefur bókina við hendina þar sem hún er í bókaskápnum alltaf til taks hvenær sem barnið vill skoða hana og sýna öðrum. Í bókinni eru ljósmyndir af foreldrum, systkinum barnsins og öðrum skyldmönnum ásamt ýmsum viðburðum sem barnið hefur upplifað. Foreldrar skrifa texta í bókina sem gefur starfsmönnum tækifæri til að hvetja börnin til að segja frá því sem er í bókinni og það þekkir svo vel. Með þessari bók styrkjum við málþroska barnsins og eflum öryggi þeirra. Börnin kynnast hvert öðru í gegnum bókina, þau segja frá því sem er á myndunum. Þannig segja bækurnar sögu barnsins í máli og myndum. Ein bók er gerð á hverju ári. Fyrsta bókin er græn, þá gul, svo rauð og síðan blá og svo fjólublá.

Ferðabangsi

Ferðabangsi er á hverri deild leikskólans. Hann ferðast heim til barnanna og dvelur hjá börnunum til næsta dags. Hann á sína tösku og dagbók sem foreldrar með hjálp barnanna skrifa í það sem barnið upplifði með bangsanum þann tíma sem hann dvaldi með barninu. Þessi leikur er mjög barnvinsamlegur, þ.e. höfðar sterkt til barnanna og barnsins í sjálfum okkur og stuðlar að góðum samskiptum heimilis og leikskóla. Börnin „lesa“ síðan með aðstoð starfsmanna hvað stendur í dagbókinni fyrir alla á sinni deild.

Kaffidagar

Kaffidagur er nokkrum sinnum yfir skólaárið og er hann á milli kl. 8:00-9:00 á miðvikudegi. Þá er kaffi á könnunni, vatn og te á öllum deildum. Þar gefst foreldrum tækifæri til að staldra við smá stund og skoða það sem barnið hefur verið að gera og það sem vekur áhuga þeirra, kynnast öðrum foreldrum og starfsfólki betur.

Skipulagsdagar

Skipulagsdagar eru sex á hverju skólaári. Leikskólinn er lokaður þá daga og starfsfólk leikskólans nýtir þá í fræðslu/nám og símenntun sína ásamt því að skipuleggja starfið. Á leikskóladagatali Jöklaborgar kemur fram hvaða dagar ársins þetta eru. Hægt er að skipta skipulagsdögum niður í hálfa daga og allt niður í tvær klst.

Að koma með og sækja barn í leikskólann

Sú regla ríkir í Jöklaborg að börn komi og fari úr leikskólanum í fylgd með fullorðnum. Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar leggur áherslu á að börn undir 12 ára aldri sæki ekki börnin í leikskólann. Foreldrar gefa upplýsingar í fyrsta viðtali hverjir hafa leyfi til að sækja barnið. Eingöngu þeir sem eru skráðir geta sótt það en komi til þess að aðrir sæki barnið en þeir sem eru skráðir verður að láta starfsfólk vita af því. Alltaf þarf að láta starfsfólk vita þegar barn er komið á morgnana og þegar það er sótt að degi loknum.