Í Jöklaborg hafa skapast ýmsar hefðir og hátíðir eru haldnar sem taka mið af leikskólastarfinu hverju sinni og svo aðrar sem taka mið af þjóðararfi okkar. Eitt af hlutverkum leikskólans er að viðhalda gömlum hefðum og tyllidögum í sögu þjóðarinnar til að styrkja þjóðarvitund barnanna. Sumt er með þátttöku foreldra og annað ekki.

Alþjóðlegi bangsadagurinn
Á alþjóðadegi bangsa 27. október ár hvert koma börnin með bangsann sinn að heiman og leikið er með þá ásamt ferðabangsa deildarinnar. Allir koma saman í sal og sungið er fyrir bangsana. Með þessum leik er verið að höfða til barnsins í sjálfum okkur og taka þannig þátt í mjög barnvinsamlegum leik.

Fullveldisdagurinn 1. desember
Í tilefni dagsins er hátíð í sal þar sem börnin eru frædd um hvenær og hvernig Íslendingar fengu fullveldi og sagt er frá þjóðfánanum okkar. Þjóðlegur matur er í hádeginu. Undirbúningur dagsins felst í fræðslu um þjóðfánann og sungin eru ættjarðarlög.

Dagur íslenskrar tungu
Á degi íslenskrar tungu 16. nóvember ár hvert er haldið uppá daginn með mismunandi hætti, s.s lestri íslenskra bóka, sögu frá eigin brjósti og lestri nemenda Ölduselsskóla sem koma sérstaklega í heimsókn þennan dag.

Aðventa
Á aðventunni er lögð áhersla á að skapa rólegt og notalegt andrúmsloft og njóta aðventunnar. Börnin baka piparkökur og bjóða foreldrum að smakka í Aðventustund. Þau gera gerkarla, útbúa jólagjafir fyrir foreldra sína, æfa jólalögin, einnig fræðast þau um jól og jólahefðir fyrr og nú ofl.

Aðventustund
Á aðventu skiptast börn deilda á að bjóða foreldrum og aðstandendum barnanna í sal leikskólans á Aðventustund. Börnin syngja og leika jólahelgileikinn og eftir það er öllum boðið í heitt súkkulaði, kökur og jólastemningu.

Jólaball
Í sal leikskólans er haldið jólaball þar sem dansað er í kringum jólatré og jólasveinninn kemur í heimsókn og dansar með okkur. Hann fer síðan inn á allar deildir og færir börnunum gjafir.

Kirkjuferð
Börn og starfsfólk leikskólanna í Seljahverfi fara í Seljakirkju. Þar skiptast elstu börn leikskólanna á að sýna helgileik og að vera í kór. Farnar eru tvær ferðir í kirkju því fjöldinn er það mikill, tveir og tveir leikskólar eru saman. Foreldrar og aðstandendur barnanna eru velkomnir.

Þrettándinn
Þennan dag höldum við hátíðlegan, dönsum kringum jólatréð í salnum og kveðjum jólin.

Þorrinn
Á Bóndadaginn er boðið upp á þorramat og börnunum sagt frá gömlum siðum og venjum.

Dagur leikskólans
Dagur leikskólans 6. febrúar er haldinn hátíðlegur því þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Stuðlað er að jákvæðri umræðu um leikskólastarfið með ýmsum hætti. Á degi leikskólans er foreldrum/aðstandendum barna Jöklaborgar boðið að koma í leikskólann á milli kl. 8:00 – 10:00. Boðið er í morgunmat ásamt því að kynnast starfi og verkefnum barnanna, fara um húsið að vild og sjá og upplifa brot úr starfi leikskólans.

Tannverndarvika
Tannverndarvika er í febrúar ár hvert. Í þeirri viku er rætt um mikilvægi góðrar tannhirðu, lesnar bækur um tannvernd og ýmis fræðsla um þetta efni ásamt því að sýna myndina um Karíus og Baktus.

Bolludagur, sprengidagur, öskudagur
Í tilefni bolludagsins eru fiskibollur/kjötbollur í hádeginu og rjómabollur í síðdegishressingunni. Á sprengidegi er boðið upp á saltkjöt og baunir í hádegismat. Hefð er fyrir því að börnin búi til sína öskudagsbúninga í leikskólanum. Byrjað er á að skoða, hanna og gera öskudagsbúninga þremur vikum fyrir öskudaginn. Notuð eru efni/efnisbútar, tölur, pappír og ýmislegt sem má klippa, mála og skreyta með. Börnin skreyta kassa sem í eru pokar með snakki fyrir hvert barn. Hefð er fyrir því að „slá köttinn úr tunnunni”, í salnum þ.e. þá koma börnin eitt af öðru og slá í kassann þar til hann opnast og innihald hans dettur úr. Farið er í leiki og dansað í salnum. Í hádeginu er boðið upp á pylsur með öllu.

Opið hús
Fjölskyldum barna í leikskólanum og öðrum sem áhuga hafa gefst tækifæri til að kynna sér starf leikskólans og skoða starf vetrarins á „Opnu húsi” sem er venjulega um mánaðamót apríl/maí. Börnin sýna og segja frá þeim verkum sem þau hafa unnið að á skólaárinu.

Hátíðarhöld í tilefni þjóðhátíðar
Síðasta virkan dag fyrir 17. júní eru hátíðarhöld í tilefni þjóðhátíðardags okkar Íslendinga. Undirbúningur felst í að æfa og læra þjóðleg göngulög og fræðast um þjóðfánann og af hverju við höldum daginn hátíðlegan. Farið er í skrúðgöngu um Seljahverfi með börnum, foreldrum/aðstandendum og starfsfólki leikskóla hverfisins með lúðrasveit sem er í broddi fylkingar. Komið er við í Seljahlíð sem er dvalarheimili fyrir aldraða í Seljahverfi og sungið fyrir eldri borgara hverfisins sem búa þar. Að göngu lokinni fara allir í sinn leikskóla, fara þar í leiki, grilla og njóta þess að vera saman á útileiksvæði leikskólans.

Útskrift elstu barnanna
Hefð er fyrir því að hafa útskrift elstu barna með þátttöku foreldra/forráðamanna í sal leikskólans. Útskriftin er að vori þegar hefðbundnu vetrarstarf er að ljúka.

Afmæli
Haldið er uppá afmæli barna í leikskólanum með ákveðnum hætti. Barnið býr til kórónu, sækir sér skraut í „afmælisskápinn” til borðskreytinga og getur valið sér sérstaka skykkju. Eldri börnin velja leiki sem farið er í, í salnum með börnum deildarinnar en yngri börnin velja lög til að syngja í samverustund. Þá er afmælisbarnið miðpunktur dagsins og er m.a. umsjónarmaður o.fl. Ekki er boðið upp á að koma með veitingar í leikskólann nema þegar barnið er að hætta. Ef foreldrar vilja bjóða börnum af deildinni heim í afmæli er mælst til þess að þeir setji ekki „afmælisboðskort” í hólf barnanna heldur fái upplýsingar hjá starfsmönnum deilda um heimilisföng eða símanúmer barnanna.

Sérstakir dagar
Á leikskóladagatali eru tilgreindir sérstakir dagar sem geta verið mismunandi á ársgrundvelli. Má nefna höfuðfatadagur, íþróttadagur, bleikur dagur, röndóttur dagur.