Í Seljahverfi eru fjórir leikskólar og er formlegt samstarf á milli þeirra sem staðið hefur síðan 1987. Áhersla er lögð á að nýta þann mannauð sem starfsmannahópurinn býr yfir og auðga þannig uppeldisstarfið fyrir alla sem tengjast leikskólunum, þ.e. börnum, starfsfólki og foreldrum.

Leikskólar

Stjórnendur leikskólanna hittast reglulega yfir skólaárið og ræða viðburði og sameiginleg málefni. Ýmsar nefndir eru starfandi meðal starfsmanna leikskólanna sem sjá um undirbúning ýmissa sameiginlegra árlegra viðburða, s.s. hátíðar í tilefni að þjóðhátíð Íslendinga, kirkjuferðar og sameiginlegra leiksýninga ásamt öðrum menningarferðum.

Grunnskólar

Í Seljahverfi eru sex skólar, fjórir leikskólar og tveir grunnskólar. Skólarnir hafa þróað samstarf sín á milli í um áratuga skeið. Markmið þess samstarfs er að skapa samfellu í námi barna þannig að grunnskólarnir geti mætt hverju barni þar sem það er statt og byggt þannig ofan á fyrra nám barnsins. Stjórnendur skólanna hittast reglulega og meta samstarfið, setja niður samstarfsáætlun þar sem fram kemur hvenær þrír samræmdir skipulagsdagar verða á skólaárinu. Þá skipuleggja þeir aðlögun leikskólabarnanna að grunnskólanum og heimsóknir milli skólanna. Rætt er um hvaða upplýsingar fylgja börnunum í grunnskólann. Upplýsingar fara frá leikskólanum í grunnskólana um stöðu barnsins með útfylltum gátlista „sjálfsmynd og félagsfærni þriggja til sex ára barna í leik- og grunnskólum“. Gátlistinn er unnir af starfshópi á vegum Leikskóla – og menntasviðs Reykjavíkur. Með gátlistanum fer sjálfsmynd eftir barnið, svör barna við spurningum tengdum leikskólanum og hvernig þau haldi að verði þegar þau byrja í grunnskólanum ásamt niðurstöðum úr Hljóm2 hljóðkerfisvitundarprófi. Foreldrar skrifa undir þessar upplýsingar.

Áherslur í samstarfi skólastiganna eru:

 • Að kennarar skólastiganna tveggja öðlist sameiginlega sýn á þroska og færni barns við lok leikskólans og byrjun grunnskólans.
 • Að brúa bilið betur milli þessara tveggja skólastiga.

Heimsóknir elstu barna leikskólans í grunnskólana í hverfinu eru fjórar. Í fyrstu heimsókn tekur skólastjóri á móti börnunum og sýnir þeim skólann. Í annarri heimsókn sem er ca. í febrúar fara börnin inn í kennslustofu og fá að kynnast því hvernig dagur í grunnskólanum verður og einnig fara þau í sérgreinatíma og á bókasafnið. Þau hafa með sér nesti og fara út í frímínútur. Þriðja heimsóknin er áætluð fyrir páska en þá fara börnin í kennslustofu, skoða íþróttasalinn og tölvustofuna. Fjórða og síðasta heimsóknin er síðan að vori. Barn og foreldri fá bréf frá grunnskólanum þar sem fram kemur að þeim sé boðið í grunnskólann ákveðinn dag. Þau fara með foreldrum sínum og dvelja þar fram að hádegi. Á þessum tíma er komið í ljós hvaða börn verða saman og hvaða kennarar eru með börnin. Með þessum hætti eru börnin búin að sjá umhverfið og hitta væntanlegan kennara og börnin sem verða með þeim að hausti. Börn í sex ára bekk grunnskólanna sem byrjuðu þar að hausti koma til með að heimsækja sinn leikskóla og hitta vini sína þar og segja elstu börnum leikskólans frá skólanum sínum.

Markmið menntunar:
Menntun á að gefa börnum tækifæri til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og undirbúa þau til að lifa ábyrgu lífi í frjálsu þjóðfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, jafnréttis kynjanna og vináttu allra þjóða og þjóðernishópa. Stuðla ber að virðingu fyrir mannréttindum, mismunandi menningarlegri arfleifð, tungu og gildismati, öðru fólki og náttúrulegu umhverfi mannsins.

– Barnasáttmáli Sameinuðuþjóðanna, 29. grein

Leikskólinn er í samstarfi við ýmsar stofnanir í nær- og fjærumhverfi skólans, þ. e. skólar, fyrirtæki og einstaklingar. Slíkt samstarf auðgar lærdómssamfélag leikskólans og fagmennsku. Nánustu samstarfaðilarnir eru foreldrar barnanna sem eru í leikskólanum. Leikskólar í Seljahverfi eru í formlegu samstarfi. Leik- og grunnskólar í Seljahverfi eru í samstarfi. Þá hafa starfsmenn Vinasels, frístundaheimilis í Seljahverfi, boðið elstu börnum leikskólans að koma í heimsókn. Auk þessara eru eftirfarandi samstarfsaðilar þeir helstu:

 • Samstarf er við Þjónustumiðstöð í Breiðholti þar sem ýmsir sérfræðingar koma á fundi og vinna ýmis mál með starfsmönnum.
 • Samstarf er við Borgarbókasafnið í Gerðubergi sem býður upp á sögustundir ásamt útlán bóka og fara börnin þangað í sögustundir og til að fá lánaðar bækur í leikskólann.
 • Slökkvilið Reykjavíkur er í samstarfi við leikskólann um eldvarnir og fræðslu. Á haustin koma fulltrúar frá þeim með fræðsluefni fyrir elstu börnum og bjóða þeim síðan að skoða slökkviliðsbíl eða sjúkrabíl. Börnin vinna síðan ýmis verkefni í leikskólanum tengt verkefninu Logi og Glóð. Verkefni þar sem þau læra að þekkja útgönguleiðir í leikskólanum og reykskynjara.
 • Sinfóníuhljómsveit Íslands býður elstu börnum leikskóla á tónleika á hverju vori í Hörpu. Þjóðleikhúsið og Borgarleikhúsið bjóða einnig elstu árgöngum leikskóla í leikhús á haustin.
 • Farið er í heimsóknir á ýmis söfn og má þá helst nefna Árbæjarsafn og Þjóðminjasafn.
 • Umferðarskólinn er í boði á hverju vori og Brúðubíllinn heldur sínar sívinsælu sýningar í hverfinu.
 • Samstarf er við íþróttafélagið ÍR sem bjóða elstu börnum leikskólans að fara í íþróttahúsið í Seljaskóla og stunda þar ýmsar íþróttir undir stjórn þjálfara og starfsmanna leikskólans.
 • Samstarf er við Seljakirkju þar sem farið er einu sinni á ári með börnum leikskólans og fjölskyldum þeirra í kirkjuna þar sem sungið er og leikinn helgileikur.
 • Samstarf er við Seljahlíð, heimili aldraðra í Seljahverfi. Árlega koma börn, foreldrar og starfsfólk leikskóla Seljahverfis í heimsókn í Seljahlíð á hátíð sem er haldin í tilefni af þjóðhátíðardegi Íslendinga. Þar fyrir utan húsið syngja allir saman nokkur lög undir lúðrablæstri.
 • Samstarf er við Helgu Unnarsdóttur leirkerasmið sem er með STUDIOos í hverfinu. Hún hefur boðið elstu börnunum í Jöklaborg árlega til sín og þau hafa unnið í leir hjá henni og hún sýnir þeim hvernig leirinn er brenndur og ýmislegt sem tengist því að vinna með leir.
 • Samstarf hefur verið í Breiðholti þar sem allir leik- og grunnskólar ásamt frístundaheimilum hafa skipulagt saman Breiðholtsbylgju sem er sameiginlegur námskeiðsdagur þessara samstarfsaðila og er hálfan dag.
 • Samstarfsaðilar eru einnig Heilsugæslan, Velferðarsvið og Greiningarstöð ríkisins.