Leiðarljós leikskólans

Starfsmenn Seljaborgar stuðla að því að nám fari fram í leik og skapandi starfi þar sem börn njóta fjölbreyttra uppeldiskosta.
Börnum er skapað öruggt og þroskahvetjandi umhverfi þar sem allir einstaklingar fá að njóta sín og tækifæri til að hafa áhrif á umhverfi sitt og þroska sjálfræði sitt í lýðræðisumhverfi.

Markmið okkar er að börnin upplifi öryggi, hlýju, virðingu og samheldni. Samvinna er stór partur af okkar starfi og við notum setningar eins og ,,get ég aðstoðað þig kæri vinur/ kæra vinkona” “gengur bara betur næst hjá okkur” ofl.

Hjallastefnan býður upp á leikefnivið og einföld námsgögn þar sem sköpun og ímyndun er í fyrirrúmi í fjölbreyttri reynslu hvers barns. Þannig skapar sjálfbjarga fólk eigið nám og leikheim með eigin lausnum og raunveruleikatengd verkefni eru í fyrirrúmi.

Aðalnámskrá leikskóla

Aðalnámskrá er rammi um skólastarfið á þessum skólastigum og leiðsögn um tilgang þess og markmið. Hún birtir heildarsýn um menntun og útfærir nánar þá menntastefnu sem felst í lögunum. Leikskólinn í samstarfi við foreldra á að kappkosta að fylgjast með og efla alhliða þroska allra barna, veita öllum börnum hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og stuðla að öryggi þeirra og vellíðan. Áhersla skal lögð á styrkleika barna og hæfni og þörf þeirra fyrir vernd og leiðsögn fullorðinna. Leikskólum ber að sinna forvarnarstarfi með því að stuðla markvisst að velferð barna og farsælli skólagöngu þeirra. Starfsfólk leikskóla skal grípa til viðeigandi ráðstafana ef þörf krefur þannig að öll börn fái sem best notið sín miðað við þroska og þarfir hvers og eins. Í leikskólastarfi mynda hugtökin uppeldi, umönnun og menntun eina heild. Börnum er sýnd virðing og umhyggja og þau fá hvatningu og viðfangsefni við hæfi. Litið er á þau sem fullgilda þátttakendur í samfélagi leikskólans. Eftirfarandi leiðarljós eiga að vísa leikskólum veginn í mótun leikskólastarfs. Starfsfólk leikskóla, í samráði við foreldra og börn, þarf að koma sér saman um hvernig starf leikskólans tekur mið af leiðarljósunum og skrá aðferðir og leiðir í skólanámskrá leikskólans.

Hugmyndafræði og áherlsur í Seljaborg

Á leikskólanum Seljaborg vinnum við í anda Hjallastefnunnar. Hjallastefnan byggir á meginreglum sem er grundvöllur að öllu starfi Hjallastefnuskóla. Þær eru í reynd bæði stefnuyfirlýsing og hugmyndafræði leikskólans og fela í sér þá lífsýn og mannskilning sem allt starfsfólk sameinast um. Meginreglurnar eru í skýrri forgangsröð þar sem fyrstu reglurnar hafa forgang og hver regla byggir á þeirri sem á undan kemur. Jafnframt er fyrsta reglan innsti kjarni starfsins og þannig koll af kolli umlykur hver regla þá næstu á undan.

Í hinu kynjaskipta skólastarfi er markmiðið að gera báðum kynjum jafn hátt undir höfði og mæta ólíkum þörfum stúlkna og drengja. Viðmiðið er að gefa þeim kost á að starfa og leika á eigin forsendum þar sem menning beggja kynja er virt og viðurkennd.

1. Regla
Hjallastefnunni er ætlað að mæta hverju barni eins og það er og virða og viðurkenna ólíkar þarfir aldurshópa, kynja og einstaklinga. Skólanum ber einnig að virða valfrelsi og ólíkan áhuga barna og hlúa á víðfeðman hátt að velgengni allra.

2. Regla
Hjallastefnunni er ætlað að stuðla að því að jákvæðni, gleði og kærleikur séu ráðandi öfl í samskiptum starfsfólks svo og í öllum samskiptum við börn og foreldra og aðra sem koma að málum skólans.

3. Regla
Hjallastefnunni er ætlað að skapa samfélag innan hvers skóla þar sem jafnvægi, einfaldleiki og gagnsæi er ráðandi í dagskrá, umhverfi og búnaði og reglur eru sýnilegar og áþreifanlegar. Þannig gefst börnum skiljanlegt og viðráðanlegt umhverfi miðað við aldur þeirra, þroska og getu.

4. Regla
Hjallastefnunni er ætlað að bjóða upp á leikefnivið og einföld námsgögn þar sem sköpun og ímyndun er í fyrirrúmi í fjölbreyttri reynslu hvers barns. Þannig skapar sjálfbjarga fólk eigið nám og leikheim með eigin lausnum og raunveruleikatengd verkefni eru í fyrirrúmi.

5. Regla
Hjallastefnunni er ætlað að kenna börnum að skynja og njóta náttúrulegs umhverfis og virða náttúruna með nýtni, nægjusemi og hófsemi svo og með umhirðu og endurvinnslu.

6. Regla
Hjallastefnunni er ætlað að þjálfa aga og hegðun á jákvæðan og hlýlegan en um leið ákveðinn og hreinskiptinn hátt. Með nákvæmni og festu verður taminn vilji leiðin til öryggis og frelsis fyrir alla í rósemd og friði innan skólasamfélagsins og síðar til ábyrgrar þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi.

Lotuskipt skólaár

Skólaárinu skipt í sex lotur og er hver lota í fjórar vikur. Loturnar byggjast á því að þjálfa og bæta bæði einstaklings- og félagsfærni hvers barns. Þrjár þeirra einkennast af þjálfun og styrkingu eiginleika og færni sem er oftar tengd við karlmennsku á meðan hinar þrjár einkennast af þjálfun og styrkingu eiginleika og færni sem er oftar tengd við kvenleika. Með því að fylgja eftir öllum sex lotum fær hvert barn því heildstæða þjálfun í einstaklings- og félagsfærni, þar sem jafnvægi ríkir á milli eiginleika sem eru oft tengdir við kyn.

Lota 1: Agi
• Agalotan er fyrsta stig félagsþjálfunar og fer fram í ágúst-september.
• Lykilhugtök lotunnar eru: virðing, hegðun, kurteisi, framkoma.

Lota 2: Sjálfstæði
• Sjálfstæðislotan er fyrsta stig einstaklingþjálfunar og fer fram í október – nóvember.
• Lykilhugtök eru: sjálfstyrking , sjálfstraust, öryggi, tjáning.

Lota 3: Samskipti
• Samskiptalotan er annað stig félagsþjálfunar og fer fram í nóvember – desember.
• Lykilhugtök eru: umburðarlyndi, hjálpsemi, víðsýni, samstaða.

Lota 4: Jákvæðni
• Jákvæðnilotan er annað stig einstaklingsþjálfunar og fer fram í janúar.
• Lykilhugtök eru: ákveðni, hreinskiptni, bjartsýni, gleði.

Lota 5: Vinátta
• Vináttulotan er þriðja stig félagsþjálfunar og fer fram í febrúar – mars.
• Lykilhugtök eru: félagsskapur, umhyggja, nálægð, kærleikur.

Lota 6: Áræðni
• Áræðnilotan er þriðja stig einstaklingsþjálfunar og fer fram í mars-apríl.
• Lykilhugtök eru: kjarkur, kraftur, virkni, frumkvæði.

Loturnar tengjast aðalnámskrá leikskóla frá 2011

Skólaföt

Frá árinu 2004 hefur Seljaborg verið með skólaföt sem saman standa af íþróttabuxum og bolum frá Henson. Á hverju hausti/vetri sendum við nýja pöntun á skólafötum. Þó skólaföt séu ekki skylda hjá okkur hér á Seljaborg þá hvetjum við foreldra til að hafa börnin sín í skólafötum.

Helstu ávinningar skólafatanna teljum við vera:

1. Skólafötin jafna aðstöðumun nemenda og minnka þannig m.a. samkeppni.
2. Skólafötin eru þægileg og styðja nemendur til sjálfshjálpar og gefa þeim þannig fleiri tækifæri til að upplifa sigra.
3. Í skólafötunum nýtur einstaklingurinn sín betur án „umbúða“. Það er persóna og andlit sem einkennir barnið en ekki fatnaðurinn.
4. Skólafötin efla skólaandann m.a. með því að skapa liðsheild.
5. Skólafötin spara mörgum foreldrum og börnum þeirra ágreining t.d. á morgnana um hverju skuli klæðast.
6. Skólafötin einfalda fatakaup og spara slit á öðrum fatnaði.

Samskipti

Góð samskipti hefur jákvæð áhrif á sjálfsmynd barna og samskiptin læra börnin að miklu leyti í gegnum leikinn. Ef upp koma ,,vandamál” hvetja kennarar börnin til þess að biðja um aðstoð og beina athyglinni að því að finna jákvæðar lausnir. Börnin fá æfingu í að koma vel fram, nota falleg orð við hvort annað og sýna hvort öðru kurteisi og biðlund. Við nýtum öll tækifæri til að æfa góð samskipti og notum til þess félagsfærni sögur sem við grípum til í aðstæðum sem þess krefjast.

Umhverfið

Hverjum skóla sem starfar samkvæmt eða í anda Hjallastefnunnar er ætlað að skapa samfélag þar sem jafnvægi, einfaldleiki og gagnsæi er ráðandi í dagskrá, umhverfi og búnaði auk þess sem reglur eru sýnilegar og áþreifanlegar.

Náttúran er mikilvægur þáttur í starfi Hjallastefnunnar þar sem markmiðið er að kenna börnum að skynja og njóta náttúrulegs umhverfis og virða náttúruna með nýtni, nægjusemi og hófsemi t.d. með umhirðu umhverfisins og endurvinnslu.