Leikurinn skiptir veigamiklu hlutverki í öllu starfi Seljaborgar enda er leikurinn börnunum eðlislægur og sjálfsprottinn. Leikurinn getur veitt einstaklingum gleði og vellíðan en getur falið í sér valdabaráttu og átök. Í leik barna verða til félagslegir hópar sem búa til sína eigin menningu og þau öðlast nýjan skilning og nýja þekkingu. Leikurinn skapar einnig vettvang þar sem spurningar vakna og börnin fá tækifæri til að leysa vandamál sem upp koma.

Þegar leikurinn er nýttur sem kennsluaðferð eru sett fram ákveðin markmið sem eiga að ná í gegnum leikinn. Námssvið leikskólans fléttast inn í leik barna þegar starfsólk tengir á markvissan hátt markmið þeirra við leik. Leikskólakennarinn kynnir börnunum nýja möguleika og skapar þannig sameiginlega reynslu sem nýtist í leik. Í leik læra börn hvert af öðru en hlutverk hins fullorðna í leik barna er ekki síður mikilvægt og margþætt. Þegar fylgst er með leik barna má sjá hvernig þau yfirfæra reynslu úr eigin lífi inn í leikinn, þannig miðla þau reynslu sinni til annarra barna og víkka þar með reynsluheim félaga sinna. Það er margt sem þarf að hafa í huga þegar leikur er nýttur sem kennsluaðferð.

Leikskólakennarinn er mikilvægur í leiknum, það er nauðsynlegt fyrir kennarann að fylgjast vel með öllum börnunum, vera vakandi fyrir þeim tækifærum sem upp koma í leik og nota þau til að kveikja áhuga barna og styðja við nám þeirra. Hann þarf að gefa leiknum nægan og samfelldan tíma, passa upp á að börnin hafi nóg pláss til að hreyfa sig og þróa leikinn, sjá til þess að öll börn hafi tækifæri til þátttöku í leik bæði úti og inni.

Dagskráin skiptist upp í hópatíma fyrir hádegið þar sem unnið er með alla námsþættina og valtíma eftir hádegi þar sem í boði er útivera, leir, sull, föndur, einingakubbar og leikur með púða og teppi. Skráning er bæði á hópatíma og vali og farið er yfir talningu valtíma einu sinni í mánuði.