Í gegnum leikinn lærum við! Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfsins, lífstjáning og gleðigjafi barns. Frjáls og sjálfsprotinn leikur er barninu eðlislægur. Leikurinn endurspeglar reynsluheim barnsins og örvar ímyndunarafl. Í sjálfsprottnum leik gefst tækifæri til að læra samskiptareglur, félagsfærni og málþroski eykst. Efniviður verður að vera til staðar sem eflir sjálfsprottinn leik. Gefa þarf tíma til leiksins.

Læsi og samskipti

Börn eru félagsverur og hafa ríka þörf fyrir samskipti við aðra og nota þau ýmsar leiðir til tjáskipta. Í gefandi samskiptum og leik styrkjast félagsleg samskipti. Læsi í víðum skilningi er mikilvægur þáttur í öllum samskiptum. Læsi í leikskóla felur í sér að auka þekkingu, leikni og hæfni barna til að geta lesið í umhverfi sitt og tjá upplifun sína, tilfinningar og skoðanir á fjölbreyttan hátt. Börnin leika sér af fúsum og frjálsum vilja og leikurinn er megin námsleið barna því hann skapar þeim tækifæri til að læra á og skilja umhverfi sitt, tækifæri á að tjá hugmyndir og langanir auk þess sem hann býður börnum upp á að gera tilraunir með hugmyndum, hann byggir á reynslu og tilfinningum barna og þróar félagsleg tengsl við önnur börn.

Á vikulegum fundi með börnum gefst börnum tækifæri til að ræða hugmyndir sínar um starfið á leikskólanum.

Markmið
Leikskólum ber að skapa eftirfarandi aðstæður fyrir barnið:

 • Leysa úr ágreiningi við jafningja á friðsamlegan hátt,
 • Vinna úr reynslu sinni í leik og skapandi starf,
 • Tjá sig með fjölbreyttum hætti (líkamlega, munnlega og í skapandi starfi),
 • Leita eftir merkingu orða og orðasambanda, ríma og átta sig á hljóðum stafa
 • Njóta þess að hlusta á og semja sögur, ljóð, þulur og ævintýri,
 • Ræða málefni og hlusta á aðra,
 • Nálgast upplýsingar með ólíkum leiðum og móta sér hugmyndir um þær,
 • Velta vöngum yfir eigin samfélagi og menningu og menningu annarra þjóða.

Leiðir
Markvisst er unnið að því að vekja áhuga barna á málinu og litið er á tungumálið sem skapandi efnivið. Það er lögð áhersla á fjölbreytta vinnu með alla þætti máls og hafa börnin gott aðgengi að fjölbreyttum málörvandi efniviði eins og Sögugrunninum og spilum sem notuð eru til málörvunar. Þau hafa einnig aðgang að skriffærum, bókum og tæknimiðlum s.s spjaldtölvum sem stuðla að verkkunnáttu. Það eru lesnar barnabækur um fjölbreytt efni til yndis og ánægju og til að efla mál og læsi. Lesið er daglega fyrir börnin í stærri og minni hópum og fyrir eitt barn í einu ef þörf er á.

Heilbrigði og velferð

Í leikskóla eiga börn að læra um og tileinka sér heilbrigða lífshætti, hollt mataræði, hvíld, hreinlæti og hreyfingu. Hreyfing er börnum eðlislæg og stuðlar að vellíðan, hún getur veitt gleði og ánægju. Hún er stór þáttur af daglegu starfi í leikskóla og mikilvægt er að veita börnum tækifæri til að hreyfa sig bæði frjálst og með skipulögðum hreyfistundum. Jákvæð samskipti er lykilþáttur í því að skapa vellíðan og hefur áhrif á heilbrigði og velferð. Leikskóli með skólabrag þar sem viðhöf eru jákvæð samskipti, vinátta, virðing, samhyggð og umburðarlyndi eykur líkur á vellíðan.

Markmið
Leikskólum ber að stuðla að heilbrigði og vellíðan með eftirfarandi áhersluþáttum:

 • Sýna umhyggju,
 • Sjá um persónulega umhirðu,
 • Þekkja holla næringu,
 • Stunda fjölbreytta hreyfingu,
 • Stunda ögrandi og krefjandi útivist,
 • Stunda slökun og hvíld,
 • Sýna tilfinningalegt jafnvægi,
 • Eiga jákvæð samskipti,
 • Njóta félagslegra tengsla.

Leiðir
Í Seljaborg er lögð áhersla á nærumhverfið og útikennslu. Flesta ef ekki alla daga ársins fer a.m.k. einn hópur út fyrir skólalóðina í hópatíma. Margir áfangastaðir í náttúrunni eru í göngufæri frá leikskólanum t.d. móar, tjörn og dalur með læk og góðum trjáreit. Elstu börnin fara gjarnan í vettvangsferðir með strætó og þá er bæði um að ræða menningar- og fræðsluferðir auk skemmtiferða sem börn og kennarar ákveða með stuttum fyrirvara.

Við leggjum áherslu á hollt og næringaríkt fæði og vinnum sem mest á staðnum. Öll börn fá hvíld einu sinni yfir daginn, sum leggja sig, önnur hlusta á sögu eða eru í annarri rólegri stund.

Við leggum áherlsu á jákvæð samskipti hvort við annað hvort sem um börn eða fullorðna er að ræða. Æfum okkur í að nota falleg orð og aðstoða hvort annað.
Hverju barni er mætt eins og það er og þau eru hvött til sjálfshjálpar, að matast, klæða sig, þvo hendur osfrv.

Heilsueflandi skólar

Heilsueflandi skólar er verkefni á vegum Embætti Landlæknis og byggir á þeirri stefnu að nálgast forvarnir út frá jákvæðu og víðtæku sjónarhorni með það að markmiði að stuðla að aukinni hreyfingu, hollri næringu, bættri andlegri líðan og jákvæðum lífsstíl. Verkefnið veitir auk þess tækifæri til að efla tengslin við nærsamfélagið og veitir nemendum og starfsfólki stuðning og tækifæri til að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl.

Sjálfbærni og vísindi

Leikskólinn hefur það hlutverk að styðja við fróðleiksþorsta barna með því að fylgjast með og hlusta eftir áhugasviði barnanna. Starfsfólk í leikskóla þarf að undrast með börnunum, ýta undir forvitni, ígrundun og vangaveltur og hvetja þau til að spyrja spurninga og leita mismunandi lausna. Börn eru sífellt að beita ýmsum aðferðum við að kanna og auka skilning sinn á umhverfi sínu. Þau horfa, snerta, bragða, handleika, flokka, bera saman, rannsaka og draga ályktanir. Mikilvægt er að kenna börnunum að bera virðingu fyrir umhverfi sínu og náttúru og skapa þeim tækifæri til að upplifa og njóta.

Markmið
Leikskólum ber að skapa eftirfarandi svo börn fái tækifæri til að vinna með og velta vöngum yfir:

 • Velta vöngum yfir umgengni sinni og bera virðingu fyrir náttúrulegu og manngerðu umhverfi,
 • Átta sig á því hvernig vistspor þeirra og nærsamfélag geta stuðlað að sjálfbærri þróun,
 • Skilja hringrásir og ýmis fyrirbæri í náttúrunni,
 • Átta sig á margvíslegum auðlindum náttúrunnar,
 • Velta vöngum yfir nýtingu náttúrunnar,
 • Vinna með upplýsingamiðlun, framsetningu og gildi upplýsinga,
 • Vinna með stærðfræðileg viðfangsefni, s.s. tölur, tákn , mynstur,
 • Vinna með lífverur í umhverfinu og lífshætti þeirra,
 • Vinna með eðli ýmissa krafta og birtingarmyndir þeirra í umhverfinu,
 • Skoða eiginleika ýmissa efna og hluta,
 • Velta vöngum yfir möguleikum og takmörkunum tækninnar,
 • Átta sig á rými, fjarlægðum og áttum.

Nýtni og nægjusemi tekur á sig margar myndir á Seljaborg. Við notum mikið verðlaust efni og búum til okkar eigin leir og lím og börnin taka þátt í því. Við nýtum allann pappír, flokkum og endurvinnum. Nýtum blöð og pappír vel; börnin lita, mála, klippa og líma, það er hægt að vinna lengi með eitt blað. Börnin setja síðan blöð sem eru ekki fullnýtt í endurvinnslu og nýta þau seinna. Og þegar blöðin eru fullnýtt þá fara börnin með þau í endurvinnslugám.

Börnin velja sér trjátegund til að fylgjast með allt árið, það eru teknar myndir, safnað hlutum sem tengjast trénu, málaðar, litaðar og teiknaðar myndir. Þannig fylgjast þau með hringrás náttúrunnar í hnotskurn.

Við erum með ýmis tæki og tól til að nota í vísindum s.s. smásjá sem við getum tengt við tölvuskjá. Stækkunargler, tilraunarglös og mælistikur sem börnin taka með sér í vettfangsferðir. Áhugaverðir hlutir teknir með heim og rannsakaðir í smásjá. Börnin gróðursetja t.d. kryddjurtir sem þau fylgjast með vaxa og síðan er það borið á borð.

Það er okkar trú að þegar við notum verðlausan efnivið þá auki það nýtingu og efli ímyndunarafl barnsins og sköpunargleðin fær að njóta sín.
Hlutverk kennarans er að veita aðgang að leikefni sem hvetur börn til að rannsaka, finna lausnir og skapa.

Sköpun og menning

Sköpun og menning er samofin öllu starfi í leikskóla og mikilvægt er að starfsfólk geri barninu kleift að nálgast viðfangsefnin frá mörgum hliðum og á eigin forsendum. Sköpun er mikilvægur þáttur í lífi barnsins og hvetja skal til skapandi hugsunar og sjálfstæðra vinnubragða hjá börnunum. Sköpun byggist á uppgötvun, gagnrýnni hugsun, rannsókn og ótal aðferðum sem sífellt opna nýjar leiðir. Starfsfólk þarf að vera forvitið með þeim og hafa getu í að leika af fingrum fram. Börn eru gullmolar og er það hlutverk kennara að fá gullið til glóa. Menning getur verið ólík og ber að virða það, fögnum fjölbreytileikanum og slíkt viðhorf ætti að ríkja innan veggja leikskóla.

Markmið
Leikskólum ber að skapa eftirfarandi tækifæri:

 • Njóta þess að taka þátt í skapandi ferli,
 • Finna ánægju og gleði yfir eigin sköpunarkrafti,
 • Kanna og vinna með margvíslegan efnivið,
 • Nýta fjölbreytta tækni,
 • Njóta bókmennta, þula, söngs, og ævintýri,
 • Læra texta og taka þátt í söng,
 • Skapa og tjá upplifun sína, s.s. í myndlist, tónlist, dansi og leikrænni tjáningu,
 • Njóta fjölbreyttrar menningar og lista,
 • Taka virkan þátt í að móta menningu leikskólans með hátíðum og viðburðum sem tengist barnamenningu.

Við vinnum með opinn efnivið sem styrkir sköpun, sjálfstraust og ímyndunarafl. Áhersla er á vettvangsferðir bæði í næsta nágrenni og í lengri ferðir. Þar læra þau um náttúrunna og hvað við getum nýtt úr henni og læra að bera virðinu fyrir nátturinni okkar. Útikennsla er mikil hjá okkur þar sem farið er í vettvangsferðir í næsta nágrenni og fyrirbæri náttúrunnar sem verða á vegi okkar eru skoðaðar. Ferlið í listsköpun skiptir meira máli en útkoman, að börnin njóti þess að skapa, hvort sem er myndlist, tónlist, leiklist eða hvað annað – aðalmálið er að börnin hafi ánægju og gleði af.

Við fögnum því að fjölmennig hefur aukist í samfélaginu og mikilvægt að leikskólastarfið endurspegli fjölbreytileika mannlífsins. Við lærum um ólíka menningu og kynnumst menningu barna af erlendum uppruna. Framlag barna af erlendum uppruna og foreldra þeirra auðgar daglegt starf leikskólanna með ýmsu móti og skapar tækifæri til að kynnast annarri menningu og öðrum tungumálum.

Seljaborg hefur sett upp málörvunarhópa þar sem börn af erlendum uppruna fá aðstoð og markmiðið með þessum hópum er að auka orðaforða og málskilning hjá þeim.

Læsistefna Seljaborgar

„Lesið í leik“ hefur verið innleidd og er unnið eftir henni og aðalnámskrá leikskóla 2011. Í áætlun okkar um læsi er barnið í brennidepli og unnið er út frá stöðu þess, reynslu og áhugasviði.

Í læsisstefnu Seljaborgar kemur fram hvaða þætti við vinnum með og hvaða leiðir við notum til þess að vinna að þessum þáttum. Þeir þættir sem við vinnum með er lestur barnabóka, við lesum barnabækur með boðskap og veljum bók og orð vikunnar úr þeim sem tengist lotunum sex úr kynjanámskrá Hjallastefnunnar. Börn af erlendum uppruna eru kvött til þess að koma með bækur á þeirra tungumáli sem þau geta sýnt hinum börnunum og sagt frá þeim. Auk þess eru skoðuð og lesin vísindatímarit og fræðibækur sem huga sérstaklega að jöfnuði kynjanna og margbreytileika þeirra. Í tónlistakennslunni læra börnin þulur, kvæði og söngtexta. Tónlistarkennslan er fjölbreytt þar sem þau klappa í hrynjanda, búa til og framleiða hljóð og syngja keðjusöngva. Öll kennslugögn, ílát og annar efniviður er merkt og passað er upp á að ritmálið sé sýnilegt öllum. Börn eru kvött til þess að spyrja H-spurninga eins og hvað, hvenær, hvernig og hvers vegna. Við erum með málörvunarhópa þar sem hvert fær viðfangsefni við hæfi og beinum við sjónum okkar mikið að börn af erlendum uppruna. Við vinnum markvisst að því að gera einstaklingum fært að tjá sig og eiga í samskiptum við aðra, geta gefið upplýsingar um sig svo sem afmælisdag, aðsetur og fjölskylduhagi. Við viljum að börnin verði í stakk búin til að ræða þau málefni sem upp koma í kringum þau og að þau hafi áhuga á og kunni að spyrja spurninga til þess að fræðast meira.

Lýðræði og mannréttindi

Við hjálpum börnum að eiga falleg samskipti með því að hafa fyrir þeim setningar og orð sem styðja þau til lausnar og jákvæðni í samskiptum og börnin eru þjálfuð í að tjá sig um hvað þau vilja og að geta sett mörk. Í Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna er sagt frá réttindum allra barna. Öll börn í heiminum eiga rétt á því að vera vernduð. Öll börn í heiminum eiga rétt á umhyggju. Þau eiga rétt á því að vera í skóla og að leika sér og öll börn eiga líka rétt á að segja sína skoðun. Daglega eru umræður um daglegt líf, frásagnir og fréttir, barnasáttmálinn ræddur s.s. réttindi og forréttindi. Haldinn er vikulegur fundur með börnum þar sem þau koma með óskir um hvað þau langar að gera í hópatíma og kosningar haldnar. Þannig hafa börnin áhrif á starf leikskólans. Á valfundum læra þau að velja og læra að þau geti haft áhrif í gegnum sitt val en einnig að stundum geta þau ekki gert það sem “þau vilja” og þurfa að velja það næstbesta.

Jafnrétti

Í kynjaskiptu skólastarfi er markmiðið að gera báðum kynjum ávallt jafnhátt undir höfði og mæta ólíkum þörfum stúlkna og drengja. Jafnfram er markmiðið að gefa þeim kost á að starfa og leika á eigin forsendum þar sem menning beggja kynja er virt og viðurkennd.

Í jafnréttisáætlun Seljaborgar reynum við að tryggja að komið verði til móts við ólíkar þarfir þessarra hópa og að allir njóti sanngirni og réttlætis.
Börn á leikskólaaldri eru opin og námsfús, því er það rétti aldurinn til þess að kenna þeim og þjálfa ýmsa færni. Það er mikilvægt að leggja áherslu á jafnréttisuppeldi strax í leikskóla. Að efla bæði stúlkur og drengi sem heildstæða einstaklinga og brjóta upp hefðbundin kynjahlutverk. Stuðla að því að börn upplifi það eðlilegt að bæði kyn vinni hin ýmsu störf í samfélaginu og innan heimilanna.

Leitast er við að tryggja að börnin upplifi að bæði karlar og konur starfi í leikskólum og að bæði kyn vinni þar hin ýmsu verk.

Gæta þess að ýta ekki undir staðalímyndir og að jafnvægi sé á milli þeirra kynjafyrirmynda og hugmynda sem birtast í bókum og/eða söngtexta