Kjarnastjórar bera ábyrgð á undirbúningi og framkvæmd á mati á börnum. Þeir skipuleggja, deila út verkefnum og sjá til þess að viðeigandi gögn/verkfæri séu til staðar. Kjarnastjórar sitja einnig samráðsfundi með Þjónustumiðstöð Breiðholts á sex vikna fresti og oftar ef þess er þörf. Á kjarnafundum sem eru einu sinni í mánuði er farið yfir hvernig við vinnum með barnahópinn, farið yfir skráningar og hvaða lausnum hefur verið beitt. Einstaklingsnámskrá er gerð fyrir hvert barn og er unnin í samvinnu við foreldra við upphaf leikskólagöngu og er farið reglulega yfir hana í foreldraviðtölum í gegnum leikskólagönguna.

Sérkennsla og þjónustumiðstöð Breiðholts

Öll börn eiga sama rétt til náms og stuðla skal að jafnrétti til náms og vellíðan allra barna. Veita skal þann stuðning við hæfi svo að barnið geti tekið þátt í daglegu starfi. Ef grunur vaknar um frávik hjá barni fer fram ákveðinn vinnuferill sem alltaf er unninn í samvinnu við foreldra/forráðamenn. Við leikskólann starfar sérkennslustjóri sem heldur utan um sérkennslumál leikskólans í samráði við leikskólastjóra og Þjónustumiðstöð Breiðholts. Við þjónustumiðstöðina starfa sérfræðingar sem geta veitt ráðgjöf, leiðbeint og eru samstarfsaðilar ef upp koma þroskafrávik hjá börnum. Fundir eru haldnir á sex vikna fresti þar sem farið er yfir það sem er verið að vinna með og ný málefni tekin upp eftir þörfum.

Innra mat

Hljóm­2 er skimun sem kannar hljóðkerfisvitund elstu barnanna í leikskólanum. Með hljóðkerfisvitund er átt við að barnið geri sér grein fyrir að tungumál hefur ákveðið form.

TRAS er skráningarlisti til notkunar fyrir leikskólakennara til að fylgjast með máltöku tveggja til fimm ára barna.

Íslenski smábarnalistinn sem er staðlaður þroskalisti til að meta málþroska, hreyfiþroska og sjálfsbjörg ungbarna á aldrinum 15­38 mánaða.

Íslenski þroskalistinn er ætlaður fyrir þriggja til sex ára börn.

Orðaskil er málþroskapróf sem byggir á orðaforðagátlista fyrir börn á aldrinum eins og hálfs árs til þriggja ára.

Efi-2 er notað til að greina málþroskaraskanir hjá þeim börnum sem greinst hafa með einhverskonar frávik á málþroska og er ætlað börnum á aldrinum 3ja – 4ra ára.

Ytra mat

Ytra mat á leikskólanum Seljaborg eru kannanir sem lagðar eru fram af SFS. Annað hvert ár gerir Reykjavíkurborg könnun meðal foreldra og aðra meðal starfsmanna. Tilgangurinn með þeim er að fá upplýsingar frá foreldrum og starfsmönnum sem við getum nýtt okkur í starfi. Niðurstöður könnunarinnar svo nýttar til að betrumbæta.