Leiðarljós leikskólans Seljakots

Frumkvæði – Sköpun – Tjáning
Leikskólinn er fyrsta skólastigið og er upphaf formlegrar menntunar einstaklinga. Í samstarfi við foreldra eflir leikskólinn alhliða þroska barna og stuðlar að öryggi þeirra og vellíðan. Áhersluþættir í öllu starfi með börnunum eru frumkvæði – sköpun – tjáning.

Mikilvægt er að veita börnum hvetjandi uppeldisumhverfi þar sem allir fá viðfangsefni við hæfi. Í Seljakoti er lögð áhersla á að börnin fái notið bernsku sinnar í leik og starfi og að þeim sé sýnd virðing og umhyggja.

Allir eru fullgildir þátttakendur í samfélagi leikskólans þar sem áhugi, hæfni og styrkleiki einstaklingsins fær notið sín. Litið er á menntun, uppeldi og umönnun sem eina heild. Markmið okkar er að hvert barn fái notið sín og verði sjálfstæðir og félagslega sterkir einstaklingar Í starfinu og í allri vinnu með börnunum nota kennarar opnar spurningar „hvað – hvernig – hvers vegna“.

Hugmyndafræði og áherslur leikskólans

Leikskólinn Seljakot starfar samkvæmt lögum um leikskóla og Aðalnámskrá leikskóla frá 2011. Á þeim grunni ber hverjum leikskóla að útfæra sína eigin skólanámskrá sem inniheldur helstu sérkenni, menningu og starfshætti skóla. Leikskólinn Seljakot hefur starf í anda Reggio Emilia að leiðarljósi.
Námskrá hefur það hlutverk að auðvelda bæði kennurum, foreldrum og öðrum áhugasömum að nálgast markmið leikskólans. Námskráin er það tæki sem starfsfólk vinnur eftir í öllu sínu starfi og notar við skipulagningu verkefna og í mati á vinnu sinni með börnunum. Skólanámskráin er unnin af öllum kennurum Seljakots ásamt því að hluti hennar var unnin í samvinnu við leikskólana Hálsaskóg, Jöklaborg og Seljaborg.

Leiðarljós Reykjavíkurborgar:
Reykjavíkurborg setur sér það markmið og leiðarljós að í leikskólum borgarinnar sé unnið metnaðarfullt fagstarf þar sem hverju barni er mætt á eigin forsendum. Áhersla er á virkt foreldrasamstarf með virkri þátttöku foreldra og að í leikskólunum starfi vel menntað og áhugasamt starfsfólk.

Uppeldisstefna Seljakots byggist á skapandi starfi þar sem meðal annars er horft til hugmyndafræði Reggio Emilia á Norður Ítalíu. Aðal frumkvöðull stefnunnar er Loris Malaguzzi en hann var sálfræðingur og kennari að mennt. Megininntak stefnunnar er að hvetja börnin til að nota öll sín skilningarvit og vinna markvisst að því að virkja frumlega, skapandi og gagnrýna hugsun. Lögð er áhersla á að börnin fái tækifæri til að nýta sem flesta hæfileika sína svo að þeir geti orðið skapandi, gagnrýnir og sjálfstæðir einstaklingar í nútíma þjóðfélagi.

Sköpun byggir á gagnrýnni hugsun og aðferðum sem opna sífellt nýja möguleika og því skiptir sköpunarferlið meira máli en afrakstur verksins.
Lögð er áhersla á takmarkalaust traust og virðingu á getu þeirra til að afla reynslu og þekkingar á eigin forsendum en ekki á forsendum og væntingum hinna fullorðnu.

Með starfi í anda Reggio Emilia er m.a. átt við að hlustað er á raddir barnanna og það er tekið mark á þeirra hugmyndum, líðan og tilfinningum. Börn eiga rétt á að taka þátt í ákvörðunum er varða eigið líf.

Með því að kenna börnum lýðræðisleg vinnubrögð erum við um leið að styrkja sjálfsmynd þeirra og frumkvæði.

Þegar unnið er í anda þessara stefnu er það vinnuferlið sem skiptir mestu máli, þar sem skynjun, forvitni og ímyndunarafl barnsins fær að njóta sín.
Í Seljakoti eru það kennararnir sem skapa tímann og rýmið fyrir börnin og hvetja þau til að sjá hlutina frá mörgum sjónarhornum. Umhverfi leikskólans og yfirbragð á að vera hvetjandi, forvitnilegt og skapandi og húsnæðið litríkt, hlýlegt og fallegt.

Mikilvægt er að aðlaga stefnuna að okkar menningu og því samfélagi sem við lifum í. Leikskólinn er lifandi samfélag í stöðugri þróun, þar sem börn og kennarar geta verið í góðu sambandi hvert við annað. Það er mikilvægt að hafa í huga að starfið sé ekki svo niður njörvað að ekki er svigrúm fyrir hið óvænta. Námskráin er ekki fyrirfram ákveðin heldur er hún lifandi og verður til í vinnu með börnunum. Mikilvæg verkefni kennara eru því að hafa vakandi augu, veita athygli, greina áhuga barnanna og vinna út frá honum.

Ljóð – Loris Malaguzzi

Barn hefur hundrað mál
en frá því eru tekin níutíu og níu.
Skóli og menning
skilja höfuðið frá líkamanum.
Við neyðumst til að hugsa án líkama
og starfa án höfuðs.
Leikurinn og vinnan
veruleikinn og ímyndunaraflið
vísindi og hugarheimar
eru gerð að andstæðum.

Sjónrænt uppeldi
Mikil áhersla er lögð á sjónrænt uppeldi, sem er andstætt því að börnin séu einungis viðtakendur. Börnunum er kennt að skilgreina hlutina og sjá þá þannig frá mörgum sjónarhornum. Markviss þjálfun sjónar er mikilvæg í uppeldinu, því hún leiðir til lifandi og skapandi hugsunar. Teikning er tæki til að þjálfa huga og hönd, örva hugmyndaflugið og athyglisgáfuna. Börnin þurfa að fá verkefni til þess að vinna úr, festa í minni reynslu sína og æfa sig í að tjá sig á einhverjum málunum sínum hundrað. Með alhliða þjálfun skynjunar og tilfinninga eykst sjálfsvitund og trú á eigin getu. Sköpunargáfan er ekki eingöngu meðfædd heldur þarf að hlúa að henni og skapa henni farveg.

Einstaklingurinn mikilvægur
Malaguzzi sagði að maðurinn yrði að kynnast sjálfum sér til þess að geta orðið öðrum kunnur. Barnið verður að skapa sér andlit, líkama, látbragð, hreyfingar, mál, hugsun, þ.e.a.s. vitneskjuna um að vera til. Börnin móta sjálfsmynd sína af umhverfinu og því er mikilvægt að hafa góð samskipti. Gæði samskiptanna er lykill að góðu starfi. Mikilvægt er að gefa börnunum tíma til umræðna, hlustunar og setja sig inn í hugarheim þeirra. Þannig getum við lært af börnunum, hvað þau eru að hugsa og uppgötva. Með samskiptum sem byggja á gagnkvæmri virðingu og trú á hæfileikum barnsins getur hinn fullorðni stutt barnið í þekkingarleit sinni.

Reynslan mikilvæg
Malaguzzi lagði áherslu á að allur fjársjóður heimsins byggi í hverdagsleikanum því lífið sjálft samanstæði af svo mörgum hversdagslegum atburðum. Galdurinn felst í því að gefa sér tækifæri og tíma til að uppgötva, sjá og skynja. Mikilvægt er að börnin fái tækifæri til að þroska öll sín skilningarvit og „öll sín mál“ s.s. forvitni, ímyndunarafl, skynjun, sköpun o.s.frv. Með hjálp allra skilningarvita öðlast börnin reynslu, þau finna, skilja og túlka.

Kenning – starf – leiðir
Sú leið sem farin hefur verið til að útfæra kenninguna er m.a. þemavinna. Þemað sjálft er ekki aðalatriðið heldur þær fjölmörgu leiðir sem farnar eru að því. Þemavinnan nær yfir langt tímabil svo við fáum tækifæri til að fara ítarlega yfir efnið, rannsaka og upplifa viðfangsefnið á fjölbreyttan hátt. Börnin eru örvuð í að skilgreina hlutina frá mörgum sjónarhornum t.d. skoða hlutina með stækkunargleri, myndvarpa og rannsaka hvert smáatriði. Þegar barnið þjálfast í að sjá hluti frá mörgum sjónarhornum verður það spurult og gagnrýnið. Þannig eykst því þekking og þroski. Mikilvægt er að gefa barninu tíma, rými og leyfa því að leita svara. Í allri sköpun er nauðsynlegt að beita gagnrýnni hugsun því hún stuðlar að aukinni viðsýni og þekkingu. Aðferð sem gagnrýnin hugsun byggir á er að velta hlutunum fyrir sér, kryfja þá til mergjar og reyna að sjá sem flest sjónarhorn. Tæknivæðing og þjóðfélagsbreytingar eru það örar að hætta er á að börn og fullorðnir falli í þá gryfju að vera einungis neytendur að lífsins gæðum. Til þess að geta haft áhrif á samfélagið og breytt því, þurfum við gagnrýna, heilsteypta og skapandi einstaklinga. Leikskólinn á að vera hvetjandi samfélag sem örvar hugrekki og forvitni barnanna og sem virðir hugmyndir þeirra og verk.

Starfsmannasáttmáli
Í Seljakoti er lögð áhersla á gæði og fagmennsku í öllum samskiptum og í uppeldisstarfi leikskólans. Gott leikskólastarf næst með metnaði og ánægðum kennurum. Lögð er áhersla á að kennarahópurinn nái vel saman og sé sammála um leiðir að markmiðum og veiti hvor öðrum stuðning og hvatningu í starfi. Reglulega er tekið til umræðu meðal kennara „hvað er vinsamlegt samfélag“. Umræðan er mikilvæg til að viðhalda góðum starfsanda. Kennarar í Seljakoti eru sammála um að það sem skipti megin máli er: Tillitssemi, að virða allar skoðanir, jafnrétti, réttlæti, jákvæðni, að skilja leiðindi eftir heima, hlýlegt andrúmsloft, húmor, umburðarlyndi og að við getum breytt okkur sjálfum, ekki öðrum. Það er mikilvægt að vita að við eigum alltaf von á góðu viðmóti, gott að finna að við tilheyrum hópnum og séum velkomin. Það er mikilvægt að leysa úr ágreiningi í sameiningu, skólinn er lítill og því er mikilvægt að allir vinni sem ein heild.
Leiðarljósin okkar eru jafnrétti – vinsemd – tillitssemi – virðing – jákvæðni.

Kennararnir eru fyrirmyndir og bera ábyrgð á mótun samfélagsins. Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eiga öll börn að búa við öryggi. Það er í okkar verkahring að koma á fót og viðhalda námsumhverfi þar sem ofbeldi er ekki samþykkt. Viðbrögð við einelti er hægt að nálgast inn á heimasíðu Seljakots. Kennarar í Seljakoti vinna að því að vera samstíga, sjá til þess að reglur séu virtar og ekki séu gefin misvísandi skilaboð.

Starfsþróunarviðtöl fara fram einu sinni á ári, í þeim fá allir starfsmenn tækifæri til að tjá eigin líðan, skoðanir, óskir og væntingar til starfsins.

Símenntun leikskólans tekur alltaf mið af uppeldisstefnu Seljakots, skólanámskrá leikskólans, aðalnámskrá leikskóla og starfsáætlun Skóla- og frístundasviðs. Reynt er eftir fremsta megni að gefa starfsmönnum tækifæri á að sækja áhugaverð námskeið sem upp koma á starfsárinu. Mikilvægt er að gefa starfsmönnum tækifæri á að sækja fyrirlestra, ráðstefnur og málþing er varða leikskólastarfið.
Kennarar í leikskólum Reykjavíkur hafa sex daga á ári til að skipuleggja og meta starfið. Þessir dagar eru ýmist heilir eða hálfir og koma fram í starfsáætlun leikskólans.

Uppeldisfræðileg skráning

Þegar unnið er í anda Reggio Emilia eru það hugmyndir og áhugi barnanna sem ráða ferðinni. Hin hundrað mál barnsins eru höfð að leiðarljósi. Viðhorf til barnsins eru þau að það er sterkt, barnið hefur mikið fram að færa og er megnugt. Til þess að geta metið og skoðað það sem hefur átt sér stað í vinnu og upplifun barnanna er notast við skráningar. Með því að taka ljósmyndir, skrá niður hugmyndir þeirra, samtöl og vangaveltur gerum við vinnu þeirra sýnilega fyrir alla, börnin, starfsfólk og foreldra. Reglulega eru hengdar upp myndir eftir börnin ásamt skráningum og ljósmyndum.

Skráningin er mikilvægur þáttur í starfinu og skilar kennaranum vitneskju um áhuga og upplifun barns. Þær geta einnig endurspeglað áhugasvið og styrkleika barnsins. Með skráningum fylgist kennarinn með þeirri þróun sem á sér stað hjá hverju barni og hverjum hópi fyrir sig.

Ferilmappa
Ferilmappa/persónumappa gegnir margþættu hlutverki. Börnin byrja strax að safna í möppuna og fara ekki með hana heim fyrr en þau hætta í leikskólanum. Í persónumöppuna safna börnin ýmsum skráningum og gögnum frá leikskóladvöl sinni sem sýna fram á þróun, þroska og framfarir. Má meðal annars nefna sjálfsmyndir að vori og hausti, ljósmyndir við ýmis tækifæri, ljósmyndir af fjölskyldu og vinum, tilraunir barnanna til að skrifa sjálf, handa- og fótaför, bréf sem börnin koma með að heiman og fleira. Með því að skoða möppuna getur starfsfólk, foreldrar og börn fylgst með hvernig barninu fer fram.

Í möppuna safnast líka skemmtilegar minningar úr vettvangsferðum, uppákomum ásamt ýmsu öðru. Möppurnar er aðgengilegar bæði fyrir foreldra og börnin.