Leikur og nám

Í Seljakoti miðast starf leikskólans við leikinn, hvort heldur um er að ræða skipulagt eða óskipulagt starf. Hlutverk kennara er að hlúa vel að samskiptum barna, skapa tíma og rými og vera til staðar ef á þarf að halda. Leikurinn er bæði markmið og leið í leikskólastarfinu þar sem námsvið leikskólans fléttast inn í leik barnanna.

Leikurinn – frjáls leikur
Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfsins, lífstjáning og gleðigjafi barns. Frjáls og sjálfssprottinn leikur er hið eðlilega tjáningarform barns. Mikilvægt er að börn fái að njóta bernsku sinnar í leik á eigin forsendum. Þau tjá lífsreynslu og upplifun gegnum leikinn.

Leikur mótast af þroska barnsins, bakgrunni þess og uppeldisumhverfi. Hann endurspeglar reynsluheim barnsins, þá menningu og samfélag sem það býr í. Í leik rifjar barnið upp það sem það hefur séð, heyrt og upplifað. Barnið lætur ímyndunaraflið ráða ferðinni, umbreytir persónum og atburðum eftir skilningi sínum og tilfinningum. Spuninn í leiknum þróast oft í samráði við leikfélagana. Börnin læra í samskiptum við jafningja, þau læra félagsfærni, tilfinningafærni og málþroskinn eykst.

Börn þurfa vandaðan og fjölbreyttan efnivið til leiks og starfa, svo sköpunargleði og ímyndunarafl fái að njóta sín. Því er mikilvægt að hafa efnivið sem ýtir undir sköpun og sjálfsprottinn leik. Þar má nefna t.d. kubba, pappír, liti, perlur, gömul föt, dúka, teppi og efni úr náttúrunni eins og t.d. steina, greinar, köngla og fleira.
Val

Valið er einskonar rammi utan um frjálsa leikinn. Valið er myndrænt þannig að starfsfólk og börn eiga auðveldara með að átta sig á hvað er í boði hverju sinni. Með því að skipta börnunum niður á svæði skapast meira næði og rólegheit í leiknum og það hjálpar starfsfólkinu að hafa betri yfirsýn. Í Koti og í Bóli fara börnin í val einu sinni til tvisvar á hverjum degi.

Flæði
Þrisvar í viku velja börnin sér svæði og verkefni þvert á húsið, við köllum stundina flæði. Börn og starsfólk flæða um allan leikskólann. Leikskólanum er skipt upp í fimm til sex svæði og geta börn og kennarar valið sér svæði og verkefni eftir áhuga og vilja. Flæðið er í rúman klukkutíma og geta börnin farið óhindrað á milli verkefna og svæða. Börnin kynnast betur á milli deilda, þau njóta sín í fjölbreyttu og skemmtilegu starfi þar sem kennararnir fylgja þeim eftir og sjá til þess að verkefnin séu skemmtileg, áhugahvetjandi og í tengslum við grunnþætti og námssvið leikskólans.

Hópastarf
Hópastarf er samheiti yfir skipulagða verkefnavinnu í leikskólanum.

Börnin fara í skipulagt hópastarf, þar sem sami starfsmaðurinn er með sinn hóp allan veturinn. Börnunum er skipt í aldurshreina hópa og eru fimm til níu börn í hverjum hópi og er starfið með þeim útfært eftir aldri og þroska þeirra. Í litlum hópi gefst gott tækifæri á að tala saman og hlusta á hvort annað. Börnin verða öruggari, það hjálpar þeim að vinna úr eigin reynslu og skilja tilfinningar sínar og annarra meðal jafningja. Í hópastarfi er unnið með ákveðið þema. Þemavinnuna nálgumst við í hópastarfi og einnig í öllu daglegu starfi. Í þemavinnunni tökum við sem flesta skapandi þætti inn í vinnuna, leikræna tjáningu, tónlist, myndmennt, framsögn og hreyfingu.

Könnunarleikur – Yngstu börnin
Í könnunarleiknum eru börnin rannsakendur og skoða viðfangsefni sem hafa margar lausnir. Leikurinn byggist á því að börnin leika sér saman í litlum hópum þar sem þau handfjatla og rannsaka ýmsan efnivið og skapa úr honum ýmis verk.

Elinor Goldschmied þróaði könnunarleikinn sem byggir á margra ára reynslu við kennslu yngri barna.

Börnunum er skipt í hópa og hvert þeirra fær 30-60 mín í viku til þess að kanna viðfangsefnin. Viðfangsefnin eru verðlaus efniviður sem notaður er á flestum heimilum t.d. áldósir, keðjur, lyklar, eggjabakkar og plastílát. Þetta gefur börnunum tækifæri á því að handfjatla og rannsaka efnivið sem þau hafa jafnvel séð aðra nota en ekki fengið sjálf að fást við. Hlutverk kennarans er að fylgjast með og styðja börnin í að leita lausna á eigin forsendum.