Í gegnum leikinn lærum við! Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfsins, lífstjáning og gleðigjafi barns. Frjáls og sjálfsprotinn leikur er barninu eðlislægur. Leikurinn endurspeglar reynsluheim barnsins og ímyndunarafl. Í sjálfsprottnum leik gefst tækifæri til að læra samskiptareglur og félagsfærni ásamt því sem málþroski eykst. Efniviður verður að vera til staðar sem eflir sjálfsprottinn leik. Gefa þarf tíma til leiksins.

Námssvið leikskóla eru Læsi og samskipti, Heilbrigði og vellíðan, Sjálfbærni og vísindi og Sköpun og menning. Minna skal á að námssvið leikskólans skarast og allir uppeldisþættir eru samofnir og verka meira og minna hverjir á aðra í öllu daglegu starfi í leikskólanum.

Læsi og samskipti

Börn eru félagsverur og hafa ríka þörf fyrir samskipti við aðra og nota þau ýmsar leiðir til tjáskipta. Í gefandi samskiptum og leik styrkjast félagsleg samskipti. Læsi í víðum skilningi er mikilvægur þáttur í öllum samskiptum. Læsi í leikskóla felur í sér að auka þekkingu, leikni og hæfni barna til að geta lesið í umhverfi sitt og tjá upplifun sína, tilfinningar og skoðanir á fjölbreyttan hátt.

Leikskólum ber að skapa eftirfarandi aðstæður fyrir barnið:

 • leysa úr ágreiningi við jafningja á friðsamlegan hátt
 • vinna úr reynslu sinni í leik og skapandi starfi
 • tjá sig með fjölbreyttum hætti (líkamlega, munnlega og í skapandi starfi)
 • leita eftir merkingu orða og orðasambanda, ríma og átta sig á hljóðum stafa
 • njóta þess að hlusta á og semja sögur, ljóð, þulur og ævintýri
 • ræða málefni og hlusta á aðra
 • nálgast upplýsingar með ólíkum leiðum og móta sér hugmyndir um þær
 • velta vöngum yfir eigin samfélagi og menningu ásamt menningu annarra þjóða

Í starfi okkar með börnunum eru notaðar ýmsar leiðir í tjáningu og samskiptum, sem hefur það að markmiði að auka félagsfærni ásamt því að styrkja sjálfsmynd barnanna. Undanfarin ár hefur verið talað um mikilvægi bernskulæsis. Allir þessir þættir eru mikilvægir í leikskólauppeldinu og fara fram í öllu starfi með börnunum.

Læsisáætlun Seljakots er unnin út frá þeim markmiðum sem Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hefur sett í málefnum um bernskulæsi. Við vinnuna var stuðst við bæklinginn „Lesið í leik“ en einnig Aðalnámskrá leikskóla og Skólanámskrá Seljakots. Sjá nánar í Læsisáætlun Seljakots.

Leikskólinn Seljakot er þátttakandi í verkefni á vegum Þjónustumiðstöðvarinnar í Mjódd sem ber heitið „Læsi allra mál“. Það felur í sér vinnu með hagnýtt læsi á öllum námssviðum í fjölmenningarlegu skólastarfi. Aðstoðarleikskólastjóri, sérkennslustjóri og einn deildarastjóri sitja í samstarfshópnum fyri hönd Seljakots.

Markmið verkefnisins er að:

 • innleiða læsisstefnur í leik- og grunnskólum í Breiðholti í anda lærdómssamfélagsins.
 • auka áherslu á snemmtæka íhlutun í starfi með mál og læsi
 • gripið sé inn í með markvissum hætti eftir þörfum hvers og eins um leið og grunur um vanda vaknar
 • fækka börnum sem þróa með sér sértækan námsvanda
 • móta þekkingarsamfélag kennara sem vinna með mál og læsi í fjölmenningarlegu skólaumhverfi
 • mynda samfellu í starfi með mál og læsi frá leikskólabyrjun og út grunnskólann
 • virkja foreldra í námi barna sinna með ítarlegri fræðslu um mál og læsi á ólíkum skólastigum

Heilbrigði og velferð

Í leikskóla eiga börn að læra um og tileinka sér heilbrigða lífshætti, hollt mataræði, hvíld, hreinlæti og hreyfingu. Hreyfing er börnum eðlislæg og stuðlar að vellíðan, hún getur veitt gleði og ánægju. Hún er stór þáttur í daglegu starfi leikskólans og mikilvægt er að veita börnum tækifæri til að hreyfa sig bæði með skipulögðum hreyfistundum og frjálst. Jákvæð samskipti er lykilþáttur í því að skapa vellíðan og hefur áhrif á heilbrigði og velferð. Leikskóli með skólabrag þar sem viðhöfð eru jákvæð samskipti, vinátta, virðing, samhygð og umbyrðarlyndi eykur líkur á vellíðan.

Leikskólum ber að stuðla að heilbrigði og vellíðan með eftirfarandi áhersluþáttum:

 • sýna umhyggju
 • sjá um persónulega umhirðu
 • þekkja holla næringu
 • stunda fjölbreytta hreyfingu
 • stunda ögrandi og krefjandi útivist
 • stunda slökun og hvíld
 • sýna tilfinningalegt jafnvægi
 • eiga jákvæð samskipti
 • njóta félagslegra tengsla

Heilsueflandi Breiðholt

Heilsueflandi Breiðholt er þróunarverkefni sem hefur það markmið að stuðla að heilbrigði og velferð í samfélaginu. Stofnanir og félagasamtök í hverfinu skapa heilsueflandi umhverfi þar sem markvisst er hlúð að þroska og heilbrigði íbúa frá ýmsum hliðum. Aðgerðaráætlun verkefnisins mun innihalda útfærslu Breiðholts á forvarnastefnu Reykjavíkurborgar sem mun ná til flestra stofnana í hverfinu og þar með allra aldurshópa, barna, unglinga, fullorðinna og aldraðra. Verkefnastjóri frístunda- og félagsauðs á þjónustumiðstöð Breiðholts hefur umsjón með verkefninu og leiðir vinnu við aðgerðaráætlun.

Heilsueflandi skólar er verkefni á vegum Embætti landlæknis og byggir á þeirri stefnu að nálgast forvarnir út frá jákvæðu og víðtæku sjónarhorni með það að markmiði að stuðla að aukinni hreyfingu, hollri næringu, bættri andlegri líðan og jákvæðum lífsstíl. Verkefnið veitir auk þess tækifæri til að efla tengslin við nærsamfélagið og veitir nemendum og starfsfólki stuðning og tækifæri til að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl. Stefnt er að því að allir grunnskólar, leikskólar og Framhaldsskólinn í Breiðholti verði Heilsueflandi skólar. Aðaláhersla í verkefninu er á fjóra þætti; næringu, hreyfingu, líðan og lífsstíl. Unnið verður með afmarkaða þætti í einu á hverju skólaári og hver skóli ákveður í hvaða röð þættirnir eru teknir fyrir. Við innleiðinguna verður horft til Forvarnarstefnu Reykjavíkur, Skólanámskrá Seljakots og kaflann Heilbrigði og velferð í Aðalnámskrá leikskóla. Áætlað er að innleiðing og mat á verkefninu taki um fjögur ár.

Almennt hreinlæti er mikilvægur þáttur í daglegu lífi barnanna. Handþvottur er mjög mikilvægur og þá sérstaklega fyrir matmálstíma og eftir salernisferðir og útiveru. Starfsfólk aðstoðar börnin eftir þörfum og er tilgangurinn að gera börnin sjálfbjarga hvað þetta varðar.

Matmálstíminn á að vera ánægjuleg og róleg stund, við styrkjum góða borðsiði og eflum sjálfsbjargarviðleitni barnanna. Mat skal bera snyrtilega fram og hann á að vera hollur og næringarríkur. Matarframboð og matseld er í samræmi við ráðleggingar Embættis landlæknis. Áhersla er lögð á að börnin noti hnífapör, skammti sér og smyrji sjálf og taki tillit til hvers annars við matarborðið.

Við leggjum mikla áherslu á útivist. Börnin fara í útivist að minnsta kosti einu sinni á dag, ef aðstæður leyfa. Hreyfing og útivera eru samtengdir þættir þar sem öll hreyfing stuðlar að andlegri og líkamlegri vellíðan. Leiksvæðið í Seljakoti býður upp á margskonar möguleika fyrir börnin í leik vegna fjölbreytileika í umhverfi þess. Fjölbreyttur efniviður er á lóðinni s.s. mold, sandur, möl, steinar, brekkur og flatir.

Börn hafa mikla þörf fyrir að hreyfa sig frjálst og óhindrað. Í Seljakoti leggjum við áherslu á að börnin fái útrás fyrir hreyfi þörf sína og sköpunarmátt. Hreyfing er hluti af hinu daglega lífi leikskólans og börnin fá næg tækifæri til hreyfingar í útivist og í vettvangsferðum. Auk þess fara börnin í skipulagðar gönguferðir um nánasta umhverfi leikskólans. Í allri hreyfingu öðlast barn skilning á styrk sínum og samhæfingu og sjálfstraust þess vex.

Elstu börnunum í Seljakoti býðst að taka þátt í íþróttaæfingum á vegum ÍR einn dag í viku hverri á leikskólatíma. Íþróttatímar ÍR og leikskólanna er liður í verkefninu Heilsueflandi Breiðholt.

Eftir hádegismat fara börnin í hvíld í hálfa klukkustund. Yngstu börnunum gefst kostur á að sofa en eldri börnin liggja og hlusta á sögu eða tónlist. Tilgangurinn er að börnin nái slökun og hvíld í amstri dagsins.

Lögð er áhersla á að efla jákvæð og vinsamleg samskipti í öllu daglegu starfi, börnin fá tækifæri til að tjá tilfinningar sínar meðal jafningja og njóta félagsskapar undir handleiðslu kennara. Börnin fá tækifæri til að vera þau sjálf og upplifa umhverfi sitt á sínum forsendum. Það að fá að upplifa t.d. í gegnum sköpun, leik og tjáningu styrkir alhliða þroska þeirra og gerir þau hæfari í samskiptum. Mikilvægt er að hafa fáar en skýrar reglur til að auðvelda öll samskipti sem börnin læra að virða og fara eftir. Styðja þarf börn í að virða settar reglur og gefa þeim kost á að leysa úr eigin málum og deilum á friðsamlegan hátt.

Sjálfbærni og vísindi

Leikskólinn hefur það hlutverk að styðja við fróðleiksþorsta barna með því að fylgjast með og hlusta eftir áhugasviði barnanna. Starfsfólk í leikskóla þurfa að undrast með börnunum, ýta undir forvitni, ígrundun og vangaveltur og hvetja þau til spyrja spurninga og leita mismunandi lausna. Börn eru sífellt að beita ýmsum aðferðum við að kanna og auka skilning sinn á umhverfinu. Þau horfa, snerta, bragða, handleika, flokka, bera saman, rannsaka og draga ályktanir. Mikilvægt er að kenna börnum að bera virðingu fyrir umhverfi sínu og náttúru og skapa þeim tækifæri til að upplifa og njóta.

Leikskólum ber að skapa eftirfarandi svo börn fái tækifæri til að:

 • velta vöngum yfir umgengni sinni og bera virðingu fyrir náttúrulegu og manngerðu umhverfi,
 • átta sig á því hvernig vistspor þeirra og nærsamfélag geta stuðlað að sjálfbærri þróun,
 • skilja hringrásir og ýmis fyrirbæri í náttúrunni,
 • átta sig á margvíslegum auðlindum náttúrunnar,
 • velta vöngum yfir nýtingu náttúrunnar,
 • vinna með upplýsingamiðlun, framsetningu og gildi upplýsinga,
 • vinna með stærðfræðileg viðfangsefni, s.s. tölur, tákn og mynstur,
 • vinna með lífverur í umhverfinu og lífshætti þeirra,
 • vinna með eðli ýmissa krafta og birtingarmyndir þeirra í umhverfinu,
 • skoða eiginleika ýmissa efna og hluta,
 • velta vöngum yfir möguleikum og takmörkunum tækninnar,
 • átta sig á rými, fjarlægðum og áttum.

Vettvangsferðir eru farnar til að kynna fyrir börnunum fjölbreytileikann í náttúrunni og nánasta umhverfi. Börnin fá tækifæri til að kanna umhverfi sitt og upplifa náttúruna á eigin forsendum. Þau læra að vernda og umgangast umhverfið ásamt því að, bera virðingu fyrir náttúrunni. Börnin eru virkir þátttakendur í samfélaginu þar sem umhverfisvernd, tækni og vísindi eru ekki undanskilin.

Sköpun og menning

Sköpun og menning er samofin öllu starfi í leikskóla og mikilvægt er að starfsfólk geri barninu kleift að nálgast viðfangsefnin frá mörgum hliðum og á eigin forsendum. Sköpun er mikilvægur þáttur í lífi barnsins og hvetja skal til skapandi hugsunar og sjálfstæðra vinnubragða hjá börnunum. Sköpun byggist á uppgötvun, gagnrýnni hugsun, rannsókn og ótal aðferðum sem sífellt opna nýjar leiðir. Starfsfólk þarf að vera forvitið með þeim og hafa getu í að leika að fingrum fram. Börn eru gullmolar og er það hlutverk kennara að fá gullið til að glóa. Menning getur verið ólík og ber að virða það, fögnum fjölbreytileikanum og slíkt viðhorf ætti að ríkja innan veggja leikskóla.

Leikskólum ber að skapa eftirfarandi tækifæri:

 • njóta þess að taka þátt í skapandi ferli,
 • finna ánægju og gleði yfir eigin sköpunarkrafti,
 • kanna og vinna með margvíslegan efnivið,
 • nýta fjölbreytta tækni,
 • njóta bókmennta, þula, söngs, og ævintýri,
 • læra texta og taka þátt í söng,
 • skapa og tjá upplifun sína, s.s. í myndlist, tónlist, dansi og leikrænni tjáningu,
 • njóta fjölbreyttrar menningar og lista,
 • taka virkan þátt í að móta menningu leikskólans með hátíðum og viðburðum sem tengist barnamenningu,
 • kynnast og vinna með listafólki á hinum ýmsum sviðum menningar og lista.

Frjáls og skapandi myndsköpun er ríkur þáttur í starfi leikskólans og teljum við hverskonar sköpun vera mikilvægan tjáningarmiðil. Börnin eru hvött til að nota öll sín hundrað mál s.s. forvitni, ímyndunarafl, skynjun, sköpun o.s.frv. Börn eiga auðvelt með að tjá tilfinningar sínar í myndsköpun og þar kemur fram það markverðasta í reynslu þeirra og það sem þeim er efst í huga. Það er mikilvægt að starfsmenn séu vakandi fyrir tækifærum í umhverfinu sem getur orðið kveikja í verkum þeirra. Börnin hafa greiðan aðgang að ýmiss konar efni, fá tækifæri til að kynnast eðli þeirra og að gera tilraunir með þeim. Í sköpunarferlinu þroskar barnið með sér einbeitingu og þjálfast í því að leysa flóknari verkefni. Sköpunarferlið sjálft er afar mikilvægur þáttur í alhliða þroska barna.

Fjölmenning

Í Seljakoti er tekið tillit til barna frá öðrum menningarsvæðum. Oft er leikskólagangan fyrsta reynsla barns af erlendum uppruna, af íslensku samfélagi og íslensku tungumáli. Það er hlutverk leikskólans að hjálpa börnum frá öðrum menningarsvæðum til að vera virkir þátttakendur í hinu nýja samfélagi án þess að þau glati tengslum við eigin menningu, tungu og trú.

Lögð er áhersla á að nota túlkaþjónustu þegar við á og að allir kennarar kynnist fortíð og menningu barnanna. Í foreldraviðtali eru gefnar gagnkvæmar upplýsingar. Útbúinn hefur verið listi til að safna saman mikilvægum upplýsingum um barnið og hagi þess á einn stað. Listinn á að hjálpa kennurum til að kynnast barninu, menningu, siðum og þörfum fjölskyldunnar. Það er mikilvægt að gagnkvæm virðing og þekking ríki á því hvað við erum mismunandi. Öll börn þurfa að fá að vera þau sjálf og á eigin forsendum. Þegar við á sækja kennarar í Seljakoti námskeið í fjölmenningu og sækja sér upplýsingar og fræðslu inn á fræðslu- og upplýsingavefnum allirmed.is.