Það er mikilvægt að meta þroska, líðan og nám barnsins þ.e. að safna saman upplýsingum um alhliða þroska þess. Leikskólinn notar þessar upplýsingarnar til að styðja við nám og velferð barnanna við skipulagningu leikskólastarfsins og í samstarfi við foreldra. Við leggjum áherslu á að matið beini sjónum sínum að áhuga barnanna, getu þeirra og hæfni.

Þegar fylgst er með þroska, námi og velferð barna er lögð áhersla á:

 • Alhliða þroska
 • Sjálfstæði Þetta mætti fara í ramma
 • Áhugasvið
 • Þátttöku í leik bæði úti og inni
 • Félagsfærni og samkennd
 • Frumkvæði og sköpunarkraft
 • Tjáningu og samskipti

Skóli án aðgreiningar

Í uppeldisstarfinu er markmiðið að taka mið af þörfum og þroska hvers einstaklings. Öll börn þurfa að fást við viðfangsefni við sitt hæfi, þau læra á mismunandi hátt og þroskast mishratt.

Sérkennsla

Öll börn læra best í leik og starfi með öðrum börnum. Þess vegna er lögð áhersla á að vinna með barninu í barnahópnum, sérkennslunni er sinnt í minni eða stærri hópum og í öllu daglegu starfi leikskólans. Í einstaka tilfellum þarf að taka barnið út úr barnahópnum til að þjálfa ákveðna færni (þar sem það fær sérhæfða kennslu og þjálfun).

 • Allir starfsmenn leikskólans eru meðvitaðir um sérþarfir einstaklingsins og þátttakendur í þjálfun þess
 • Leiðsögn og stuðningur tekur mið af þörfum hvers barns og er í nánu samráði við forráðamenn
 • Sérkennslustjóri hefur yfirumsjón með sérkennslunni, hann vinnur einstaklingsáætlun fyrir barn með sérþarfir í samvinnu við sérkennara, deildarstjóra og forráðamenn
 • Samvinna við skóla- og sérfræðiþjónustu þjónustumiðstöðvarinnar í Mjódd, Greiningarstöð Ríkisins og aðra sérfræðinga

Eins og komið hefur fram hafa kennarar í Seljakoti þróað með sér og notast við ýmsar leiðir við að skrá, safna saman, skipleggja og greina upplýsingar um börnin í leikskólanum. Má þar helst nefna:

 • Foreldraviðtöl í janúar – mars. Samtal um alhliða þroska, nám og líðan barns í leikskóla og heima.
 • Þroskamat – fylgst er með þroska og framförum hvers barns.
 • Gátlisti Leikskólasviðs um Tilfinninga– og félagsþroska barna.
 • Uppeldisleg skráning í starfi með börnunum.
 • Hljóm 2 – kannar hljóðkerfis- og málmeðvitund barna – fimm ára börn leikskólans eru metin að hausti og þau sem eru með slaka færni aftur að vori.
 • Tras – skráningarlisti til notkunar fyrir kennara til að fylgjast með máltöku tveggja til fimm ára barna.
 • Efi 2 – málþroskaskimun fyrir þriggja til fjögurra ára börn – er ætlað að finna þau börn sem víkja mest frá meðalfærni jafnaldra í málskilningi og máltjáningu.
 • Persónumöppur.

Til að tryggja réttindi barna og til að stuðla að umbótum í skólasamfélaginu fer fram reglulegt mat.

Innra mat

Í Seljakoti fer fram mat í formi umræðna, á deildar – og kennarafundum og á skipulagsdögum leikskólans. Þar er rætt um starfið í heild og einstaka þætti þess. Starfið er einnig skoðað og metið út frá markmiðum leikskólans og Aðalnámskrá leikskóla. Allir kennarar leikskólans koma að matinu.
Matsaðferðir, mismunandi eftir þörfum

 • „Barnið í brennidepli“ – metur gæði uppeldisstarfsins, samskipti starfsfólks, foreldrasamstarf og stjórnun.
 • Viðmið og vísbendingar – fyrir innra- og ytra mat á gæðum leikskólastarsins.
 • Starfsmannasamtöl í október/mar.
 • Starfsáætlun metin í heild sinni.
 • Umræður á fundum.

Yfir starfsárið erum við alltaf með það í huga að gera starfið okkar enn betra. Þess vegna leggjum við áherslu á umræður á fundum okkar þar sem allir geta sett fram sín sjónarmið. Þegar mat hefur farið fram er komist að sameiginlegri niðurstöðu um breytingar og þeim hrint í framkvæmd eins fljótt og auðið er.

Ytra mat

Viðhorfskönnun meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar er samstarfsverkefni mannauðsdeildar og allra sviða borgarinnar. Tilgangurinn er einkum að fá fram viðhorf starfsmanna til starfsumhverfis, samskipta og stjórnunarhátta. Könnunin fer fram annað hvert ár og eru kennarar Seljakots eindregið hvattir til að taka þátt. Niðurstöður könnunarinnar eru nýttar til að bæta árangur í starfsmannamálum og gera Seljakot að betri vinnustað. Stjórnendateymi og kennarar Seljakots ígrunda og fara yfir niðurstöður lið fyrir lið og hvaða umbætur eru árangursríkastar í starfsháttum leikskólans.

Viðhorfskönnun meðal foreldra fer fram að öllu jöfnu annað hvert ár. Öllum foreldrum er boðin þátttaka í gegnum netpóst. Könnunin er á vegum Skóla- og frístundasviðs og Mannauðsskrifstofu Reykjavíkurborgar. Tilgangur með viðhorfskönnun meðal foreldra er að kanna viðhorf þeirra til leikskólans, innra starfs, upplýsingaflæði leikskólans og fleira. Niðurstöður könnunarinnar eru afar gagnlegar fyrir kennara leikskólans og eru nýttar til að vinna að þróunar- og umbótastarfi.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið lætur reglulega, samkvæmt lögum um leikskóla, fara fram ytra mat. Markmiðið með matinu er að tryggja að starfsemi leikskóla sé í samræmi við ákvæði laga og reglugerða og í samræmi við Aðalnámskrá leikskóla.