Okkar markmið er að eiga gott samstarf við foreldra. Við vitum að það er mikilvægt til að barnið nýti dvöl sína sem best. Samstarfið er gagnkvæmt. Báðir aðilar eru sérfræðingar á sínu sviði; foreldrar eru sérfræðingar í málefnum barna sinna og leikskólakennarar í námsumhverfi ungra barna.

Foreldrar eru ávallt velkomnir í Seljakot til að fylgjast með því sem fram fer. Dagleg samskipti og upplýsingastreymi stuðla að jákvæðu og traustu sambandi milli foreldra og leikskóla, en á því byggir m.a. gott leikskólauppeldi.

Mikilvægt er að foreldrar láti leikskólakennara barns vita ef breytingar verða á högum þess og fjölskyldulífi. Allir starfsmenn í Seljakoti eru bundnir trúnaði og skrifa undir þagnareið við upphaf ráðningu.

Foreldrafundir

 • Haldinn er foreldrafundur að vori fyrir foreldra nýrra barna. Tilgangur fundarins er að kynna helstu áhersluþætti í uppeldisstarfi Seljakots.
 • Að hausti er haldinn foreldrafundur þar sem vetrarstarfið er kynnt og tækifæri gefst til umræðna. Fundirnir eru mikilvægur þáttur í samstarfi foreldra og leikskóla.

Foreldraviðtöl

 • Við upphaf leikskóladvalar eru forráðamenn boðaðir í viðtal, þar sem gagnkvæm miðlun upplýsinga á sér stað, s.s. um hagi og þroska barns og starf leikskólans.
 • Einu sinni á ári eru skipulögð foreldraviðtöl og er þá farið yfir stöðu og framfarir barnanna.
 • Foreldrar geta óskað eftir viðtölum eftir þörfum og eins geta deildarstjórar boðað forráðamenn í viðtal ef þurfa þykir.

„Leikskólinn minn“

Bæklingurinn, sem foreldrar fá afhentan fyrir aðlögun barnsins, kynnir starfsfólk deilda og segir hvernig dagurinn í Seljakoti gengur fyrir sig. Bæklingurinn er einfaldur, með ljósmyndum og stuttum texta. Tilgangurinn er að foreldrar og börn geti verið búin að kynna sér starfið í máli og myndum áður en aðlögun hefst að hausti.

Aðlögun – Þátttökuaðlögun

Það eru miklar breytingar í lífi barns að byrja í leikskóla. Þess vegna leggjum við áherslu á aðlögunarferlið Að byrja í leikskóla – Markmið og leiðir.

Þegar barn byrjar í leikskóla þarf það að fá góðan tíma til að kynnast leikskólanum, starfsfólki og börnum.

Aðlögunartíminn er mislangur. Fyrstu þrjá dagana er annað foreldrið með barninu allan daginn og á fjórða degi kveðja foreldrarnir börnin. Þá daga sem foreldrar eru með börnunum sínum taka þeir fullan þátt í starfinu og eru með börnunum sínum allan tímann. Þeir sinna eigin börnum, skipta á þeim, gefa þeim að borða, eru til staðar og leika með þeim. Þetta gefur starfsfólki tækifæri til að læra af foreldrunum hverjar venjur barnsins eru. Þessi tími er ekki síður mikilvægur fyrir foreldranna því þeir kynnast starfsfólki og starfinu í leikskólanum.

Öryggir foreldrar – örugg börn
Á aðlögunartímanum er lagður hornsteinn að öryggi og vellíðan barnsins sem og samstarfi heimilis og skóla. Til að það takist sem best höfum við skipulagt aðlögunarferli.

1. dagur 08.30-12.30
2. dagur 08.30-14.30
3. dagur 08.30-15.30
Foreldrar borða og fara í hvíld með börnunum sínum. Á meðan þau sofa gefst tækifæri til að fá sér kaffisopa og spjalla saman.
Á 4.,5. , og 6. degi mætir barnið á umsömdum tíma og dvelur til kl. 15:00 – 15:30

Góð aðlögun er þýðingarmikil varðandi öryggi og áframhaldandi dvöl barnsins.

Foreldraráð í leikskólum

Samkvæmt lögum um leikskóla, nr. 90/2008, skal vera starfandi foreldraráð við hvern leikskóla.

 • Í foreldraráði sitja að lágmarki þrír foreldrar.
 • Leikskólastjóri hefur frumkvæði að kosningu í foreldraráð.
 • Foreldrar kjósa fulltrúa sína í foreldraráð í september ár hvert til eins árs í senn.
 • Leikskólastjóra ber að starfa með foreldraráði.
 • Foreldraráð setur sér sjálft starfsreglur.

Foreldraráð skal gefa umsagnir til leikskólans og skóla- og frístundaráðs um:

 • skólanámskrá
 • starfsáætlun
 • aðrar áætlanir sem varða starfsemi leikskólans

Samkvæmt leikskólalögum ber skóla- og frístundaráði að samþykkja skólanámskrá og starfsáætlun leikskóla. Til að hægt sé að leggja þær fyrir ráðið þarf umsögn foreldraráðs að liggja fyrir.

Foreldraráð skal fylgjast með :

 • framkvæmd skólanámskrár
 • framkvæmd annarra áætlana innan leikskólans
 • að skólanámskrá, starfsáætlun og aðrar áætlanir leikskólans séu kynntar fyrir foreldrum.

Foreldraráð hefur umsagnarrétt um allar meiriháttar breytingar á leikskólastarfinu. Foreldraráð fjallar ekki um málefni einstakra barna eða starfsmanna. Foreldrar geta óskað eftir því að stofnað verði foreldrafélag og skal leikskólastjóri þá aðstoða við stofnun þess. Foreldrafélag getur ekki tekið að sér verkefni foreldraráðs.

Foreldrafélag í leikskólanum

Í Seljakoti er starfandi Foreldrafélag. Allir foreldrar í Seljakoti eru í foreldrafélaginu en stjórnina skipa sex til átta foreldrar, tveir til fjórir fulltrúar frá hverri deild. Kosið er í nýja stjórn að hausti.

Foreldrar greiða í sjóð sem innheimtist tvisvar á ári. Þessi sjóður hefur greitt til dæmis leiksýningar, rútukostnað, sveitaferð og ýmislegt sem annars væri ekki gert og er viðbót við starfið í Seljakoti.