Í íslensku þjóðfélagi eru ýmsar hátíðir og hefðir haldnar sem eðlilegt og sjálfsagt er að börnin í leikskólanum kynnist. Til að efla þjóðarvitund barnanna tengjum við þessa þætti inn í leikskólastarfið. Þennan menningararf þarf leikskólinn að styðja við og börnin að læra að virða. Í leikskólanum eru jafnframt sérstakar hefðir ríkjandi sem gefa tilefni til að halda hátíð.

Alþjóðlegi bangsadagurinn
Alþjóðlegi bangsadagurinn er haldinn 27. október ár hvert, að því tilefni mega börnin koma í náttfötum og með bangsann sinn í leikskólann

Fullveldisdagurinn 1. desember
Umræða og fræðsla um íslenska fánann og sungin eru ættjarðarlög. Þjóðlegur matur er hafður á borðum og fáninn er dreginn að húni.

Aðventan
Aðaláhersla á aðventunni er að skapa rólega og notalega stemmingu. Hefðbundið starf fellur niður þennan mánuð. Stundarskráin er brotin upp og við tekur jólaundirbúningur.

  • Hefð er fyrir því að byrja jólaundirbúninginn á því að fá til okkar leiksýningu í samvinnu við Seljaborg.
  • Við setjum upp jólaverkstæði í desember og börnin velja sér viðfangsefni tengt jólunum.
  • Aðventukaffi er í desember í Seljakoti, þá bjóða börn og starfsfólk foreldrum upp á veitingar.
  • Við gerum Seljakot að kaffihúsi.
  • Við sækjum kirkju á aðventunni ásamt öðrum leikskólum hverfisins. Elstu börn leikskólanna skiptast á að leika helgileik, en hin sameinast í kór.
  • Við höldum jólaball fyrir börn og starfsfólk. Þá er að sjálfsögðu von á jólasveininum í heimsókn.
  • Þrettándagleði – jólin sungin út.

Þorrinn
Í kringum bóndadaginn fræðumst við um þorrann og eru börnum og starfsfólki boðið upp á þorramat – Feður og afar eru velkomnir í morgunmat

Konudagurinn
Föstudaginn fyrir konudaginn er mæður og ömmur velkomnar í morgunmat

Bolludagur, sprengidagur og öskudagur
Þessir dagar bera sinn ákveðna svip. Á bollu- og sprengidag gæðum við okkur á þjóðlegum réttum sem tengjast þessum dögum. Á öskudaginn höldum við grímuball og sláum köttinn úr tunnunni. Þennan dag er hefð fyrir því að starfsfólkið í Seljakoti troði upp með leiksýningu við mikinn fögnuð áhorfenda sem að sjálfsögðu eru börnin í leikskólanum.

Opið hús
Að vori höfum við opið hús hjá okkur, þá eru fjölskyldum barnanna boðið að koma og kynnast leikskólastarfinu og skoða afrakstur vetrarstarfsins.

Sumarhátíð
Við tökum forskot á þjóðhátíðina. Síðasta virka dag fyrir 17. júní fara öll leikskólabörnin í hverfinu í skrúðgöngu með lúðrasveit í broddi fylkingar. Gangan endar fyrir framan Seljahlíð þar sem sungin eru nokkur lög fyrir heimilisfólkið. Á eftir förum við í garðinn okkar sem við erum búin að skreyta í tilefni dagsins og höldum sumarhátíð með okkar lagi, grillum pylsur og skemmtum okkur saman, börn, starfsfólk og foreldrar.

Útskrift elstu barnanna
Að vori útskrifast elstu börnin úr leikskólanum. Þau bjóða foreldrum sínum og jafnvel afa og ömmu í leikskólann. Börnin sýna og segja frá verkum sínum sem unnin eru í tengslum við þema vetrarins. Þau syngja nokkur lög og boðið er upp á veitingar sem foreldrar leggja til á sameiginlegt hlaðborð. Markmiðið er að eiga gleðistund í lok leikskóladvalarinnar.

Afmæli
Á afmælisdaginn er barnið í hávegum haft, það fær afmæliskórónu og er umsjónamaður dagsins. Afmælisbarnið fær að velja sér borðbúnað og afmælisskikkju og það eru teknar myndir af barninu og þær hengdar upp.

Dagur leikskólans
Dagur leikskólans er haldinn hátíðlegur í Seljakoti. Þann 6. febrúar árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtökin sín. Til að vekja athygli á starfi leikskólans og stuðla að jákvæðri umræðu um leikskólastarfið höldum við upp á daginn með margbreytilegum hætti.

Dagur íslenskrar tungu 16. nóvember – Listaskáld íslenskrar tungu
Jónas Hallgrímsson er eitt dáðasta ljóðskáld Íslendinga. Fæðingardagur hans hefur verið valinn dagur íslenskrar tungu. Við höldum upp á daginn ár hvert. Sú hefð hefur skapast að tólf ára gömul börn úr Ölduselsskóla koma til okkar í heimsókn og lesa fyrir börnin.

Litadagar og rugldagar
Til að brjóta upp hversdagsleikan og gera okkur glaðan dag þá höfum við litadaga yfir starfsárið þ.e. gulan, rauðan, bláan og grænan dag eða eitthvað sem okkur dettur skemmtilegt í hug. Þessa daga mæta börn og kennarar í „réttum lit“ í leikskólann eða með hatt á höfði eða í öfugri peysunni – það eru engin takmörk á hugmyndafluginu.