Formlegt samstarf er á milli leikskólanna í hverfinu. Þar sem áhersla er lögð á að nýta þann mannauð sem kennarar búa yfir og auðga þannig uppeldisstarfið fyrir alla sem tengjast leikskólunum, þ.e. börn, kennara og foreldra.

Ýmsar nefndir eru að störfum sem koma að undirbúningi á árvissum viðburðum s.s. sumarhátíð leikskólanna, sameiginlegum leiksýningum og menningarferðum. Stjórnendur leikskólanna eiga einnig með sér farsælt og gott samstarf, til að ræða starfstengd mál er fundað reglulega yfir starfsárið.

Tengsl á milli skólastiga

Það er mikilvægt að nám og uppeldi í grunnskóla byggi á fyrri reynslu og námi barna, til að skapa öryggi og ný námstækifæri. Viðfangsefnin og þekkingin sem börnin öðlast í leikskólanum er því mikilvægur grunnur sem þau búa að og grunnskólanámið byggir á.

Leik- og grunnskólar í Seljahverfi hafa með sér formlegt samstarf. Markmið þess er að skapa sem besta samfellu milli skólastiganna. Við skipulagningu samstarfisins koma stjórnendur skólanna, leikskólakennarar elstu barnanna í leikskólunum og grunnskólakennarar í hvorum skólanum fyrir sig.

Til að tryggja sem best velferð og áframhaldandi þroska barnanna þegar þau flytjast á milli skólastiga er gert ráð fyrir að upplýsingar fylgi hverju barni, má þar nefna niðurstöður úr Hljóm 2 og gátlisti um Tilfinninga – og félagsþroska barna

Áhersluþættir eru:

 • að kennarar skólastiganna tveggja öðlist sameiginlega sýn á þroska og færni barns við lok leikskólans og byrjun grunnskólans
 • að brúa bilið betur á milli þessara tveggja skólastiga

Börnin sem hefja grunnskólagöngu að hausti koma til með að heimsækja sinn skóla. Í fyrstu heimsókn tekur skólastjóri á móti þeim og sýnir þeim skólann. Í annarri heimsókn koma þau til með að kynnast skólastarfinu, þau fara með nesti og sitja í tímum með 1. bekk. Í lok maí eða í byrjun júní fara þau síðan í þriðju og síðustu heimsóknina, í þeirri heimsókn koma þau til með að hitta tilvonandi bekkjarfélaga og kennara. Barnið fær sent bréf frá grunnskólanum með nánari upplýsingum og dagsetningu og fylgja foreldrar barninu í þessa heimsókn.

Samstarfsaðilar

Leikskólinn er í góðu samstarfi við ýmsar stofnanir í nær og fjær umhverfinu. Samstarfið er mikilvægt, það styður við fagmennsku, þekkingu og fjölbreytni í uppeldisstarfinu. Okkar helstu samstarfsaðilar eru:

 • Þjónustumiðstöðin í Mjódd
 • Heilsugæslan
 • Velferðarsvið
 • Greiningarstöð ríkisins
 • Frístundarheimilin í Seljahverfi
 • Seljakirkja
 • ÍR
 • Seljahlíð
 • Menningarmiðstöðin Gerðuberg
 • Árbæjarsafn
 • Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins
 • Þjóðleikhúsið
 • Borgarleikhúsið
 • Harpan